Helgarsprokið 9. janúar 2000

9. tbl. 4. árg.

Í ármótaávarpi sínu sagði Davíð Oddsson forsætisráðherra m.a.: „Samskipti Íslands við umheiminn hafa stóraukist á öldinni sem er að kveðja og verið einn lykillinn að velgengni hennar. Jón forseti sagði árið 1842: „Þá hefir menntunin verið mest, þegar mestar hafa verið utanferðir og Íslendingar átt mest viðskipti við önnur lönd“, en hann bætir við: „Þó ekki við eitt land, heldur mörg.“ Í mínum huga skipta þessi viðbótarorð Jóns mestu fyrir hagsmuni Íslands nú. „Þó ekki við eitt land, heldur mörg.“ Á sama hátt og okkur var óhollt að sækja allt til Danmerkur eigum við ekki að sækja allt okkar nú eða síðar meir til hins nýja sambandsríkis Evrópu, sem virðist vera í mótun, þótt áríðandi sé að við eigum við það nána og góða samvinnu.“

Í gær ritaði Ásgeir Jónsson hagfræðingur grein í Morgunblaðið þar sem hann veltir upp þeim möguleika að Íslendingar taki upp myntsamvinnu við Norður-Ameríku. Ásgeir segir: „Evrópusambandið er í huga of afskiptasamt um innanlandshagi til þess að Ísland geti gengið í faðm þess. Evran stendur þó aðeins aðildarríkjum ESB til boða og þar við situr. En ef litið er vestur hillir undir marga möguleika. Ameríka er að verða eitt efnahagssvæði með dollar sem mynteiningu. Með því að tengjast þessu ferli þyrftu Íslendingar ekki að fórna fullveldi eða fiskumiðum og gætu uppskorið svipaðan ef ekki drýgri ávinning en fylgir Evrunni.“

Þessi sjónarmið Ásgeirs eru tímabær og kærkomin undantekning frá þeirri evrópueinstefnu sem umræða um samskipti Íslands við önnur lönd tekur svo oft. Ásgeir styður þau líka með veigamiklum rökum. Hann bendir til dæmis á að helsti vaxtarbroddurinn í íslenskum útflutningi síðustu ár sé sala á þjónustu, ferðamannaþjónustu, tækni og hugviti. Við eigum 44% af þessum þjónustuviðskiptum við Bandaríkin en aðeins 21% við evrulöndin miðað við árið 1998. Þetta er að sjálfsögðu til marks um það hve mikla forystu Bandaríkin hafa á Evrópu í tölvu- og tæknigreinum. Ásgeir bendir á að sameiginleg mynt sé þessum vaxtarbroddi íslensks útflutnings mun mikilvægari en vöruútflutningum til evrulandanna. Ásgeir bendir jafnframt á að aðild að ESB fylgi mútugreiðslur til S-Evrópuríkja, veiðiheimildir eða greiðslur í þróunarsjóði. Samskipti okkar við Bandaríkin gegnum tíðina hafi hins vegar verið með þeim hætti að ekki megi búast við öðrum en bestu kjörum. Bandaríkjamenn og Bretar séu líka fulltrúar hinnar engilsaxnesku hefðar í viðskiptasamstarfi sem einblínir ekki á miðstýringu, samræmingu og annað slíkt.

Í lokaorðum greinarinnar segir: „Bæði evran og dollar fela í sér marga aðra kosti, s.s. lægri vexti, en hér hefur aðeins verið fjallað um muninn á milli þeirra. Bandaríkin skipta höfuðmáli fyrir þjónustuútflutning landsins og því gæti dollarinn skilað meir ábata en evran í myntsamstarfi. Þá skiptir einnig máli að myntsamstarf um dollar krefst minni tilslakana, hvort sem rætt er um framsal á fullveli, fiskimiðum eða beinar greiðslur. Niðurstaðan gæti verið sú að hagsmunum Íslendinga sé best borgið með evrópskum viðskiptasamningum sem tryggja vöruviðskipti, en jafnframt amerísku myntsamstarfi sem styður þjónustuviðskipti.“