Í umræðu um tiltekið frumvarp í þinginu á dögunum sagðist Ögmundur Jónasson samþykkja frumvarpið með ákveðnum fyrirvara: Fyrirvarann yrði að virða, „…annað væri mannréttindabrot og um mannréttindi gerum við ekki málamiðlanir“, sagði Ögmundur staffírugur. Nú liggur þetta sem sagt fyrir, við gerum ekki málamiðlanir um mannréttindi. Við mundum aldrei láta minnsta grun leika á því að við brytum á fólki mannréttindi. Nema hvað. Til að mynda mundum við aldrei láta aðild að tilteknu félagi vera forsendu fyrir að fólk fái að vinna viss störf, enda kemur skýrt fram í Mannréttindasáttmála Sameinuðu þjóðanna að slíkt framferði væri mannréttindabrot. Allra síst mundum við blanda ríkinu inn í slíka nauðung, til að mynda með því að láta skylda opinbera starfsmenn til félagsaðildar að og greiðslna til einhverra samtaka. Hver veit meira að segja nema einhverjir pólitískir pótintátar myndu nota slík félög í þágu sinnar hugmyndafræði og síns flokks. Nei, þetta myndi aldrei gerast, allra síst ef þeir kæmu að máli sem engan afslátt gefa af mannréttindum, menn eins og Ögmundur Jónasson.
Í gær og fyrradag var fjallað um ævisögu Steingríms Hermannssonar í DV. Í fyrradag skrifaði Haukur Þór Hauksson viðskiptafræðingur um það hvernig Steingrímur reynir að skella skuld af eigin fjármálamisferli á látinn bókara Rannsóknaráðs, sem Steingrímur stýrði. Í leiðara DV undir fyrirsögninni „Sögufalsanir ævisagna“ var í gær tekið í svipaðan streng og telur leiðarahöfundur að baunamál Steingríms, þ.e. fyrrnefnd fjármálamisferli, hafi snúist um „eindreginn brotavilja Steingríms“. Höfundur leiðarans bindur ekki miklar vonir við framhaldið á ævisögu Steingríms og segir: „Viðhorf ævisöguritarans vekur ekki vonir um að frekari bindi verði trúverðugri.“
Í grein Hauks Þórs eru rakin nokkur dæmi af ótrúlegri meðferð fjármuna Rannsóknaráðs í framkvæmdastjóratíð Steingríms Hermannssonar, þar á meðal af grænu baununum sem málið allt hefur síðan dregið nafn sitt af: „Steingrímur keypti grænar baunir og annan mat fyrir Surtseyjarfélagið, en hann var formaður þess félags. Maturinn var handa mönnum sem unnu fyrir félagið, en reikningur vegna kaupanna fannst hins vegar í bókhaldi Rannsóknaráðs. Þar voru grænu baunirnar skráðar á bifreið ráðsins sem viðhald!“ Haukur nefnir einnig sem dæmi að bílnúmerum á reikningum hafi verið breytt, þannig að númer á einkabíl Steingríms var strikað út og númer bíls Rannsóknaráðs sett í staðinn til að láta ráðið greiða reikningana. Eins og bent er á í umræddri grein reynir Steingrímur í bók sinni að hreinsa sig af þessu máli með því að kenna látnum manni um „mistökin“. Liggur þá beint við að spyrja hvers vegna sá maður hefði átt að taka upp hjá sjálfum sér að breyta þessum nótum til að Steingrímur slyppi við að greiða þær. Annað sem hlýtur að þurfa að spyrja að er hvers vegna þessar ásakanir komu ekki fram fyrr. Líklega fyndist flestum eðlilegra að þær hefðu verið reifaðar áður en maðurinn féll frá, næg voru tækifærin.
Þegar hafa verið rituð tvö bindi þessarar ævisögu Steingríms og hafa Steingrímur og Dagur B. Eggertsson, ritari bókarinnar, greint frá því að von sé á meiru af herlegheitunum. Líklega bíða fáir spenntir eftir þeim skammti, en þó mun ritara bókarinnar gefast þar færi á að endurskoða það sem rangt er farið með í fyrri bókum og birta leiðréttingar. Ólíklegt er þó að hann fari þá leið, enda ekki annað að sjá en hann sé sáttur við það hlutverk að segja frá svo betur hljómi fyrir Steingrím Hermannsson.