Laugardagur 2. maí 1998

122. tbl. 2. árg.

Athyglisvert próf er lagt fyrir íslenska fjölmiðla þessa dagana. Svo virðist sem skuldir Þjóðviljans sáluga við Landsbankann hafi gufað upp í formannstíð Ólafs Ragnars Grímssonar. Nú er að sjá hvort fjölmiðlar hér hafi uppburði í sér til að spyrja Ólaf Ragnar Grímsson hvað varð um skuldirnar og fara ofan í kjölinn á málinu. Fjölmiðlarnir eru að vísu misjafnlega í stakk búnir til þess verks. DV stendur einna best að vígi með tvo fyrrverandi ritstjóra Þjóðviljans, frá þeim dýrðardögum er skuldirnar góðu hrönnuðust upp, við stjórnvölinn. Össur Skarðhéðinsson, vopnabróðir Ólafs Ragnars úr innanbúðarati í Alþýðubandalaginu og Silja Aðalsteinsdóttir rmunu vafalítið tryggja að DV bregði sinni hvössu egg enda kunnara en frá þurfi að segja að blaðið er frjálst og óháð.

Eggert Haukdal ritaði hér á árum áður lærðar ritgerðir gegn verðtryggingu lána. Vildi hann leggja bann við því að lán hækki til samræmis við annað í landinu. Hljótt hefur verið um þessa skoðun frá því Eggert féll af þingi fyrir nokkrum árum. Í Morgunblaðinu í gær sannast þó að engin skoðun er svo vitlaus að hún eignist ekki nýja bandamenn. Þar ritar Sigurður T. Sigurðsson formaður Verkamannafélagsins Hlífar grein þar sem hann skorar á alþingismenn að banna verðtryggingu lána.

Það er svo sem ekkert nýtt að verkalýðsforystan taki undir hugmyndir sem skerða kjör almennings en hugmynd Sigurðar gæti einmitt gert það. Verðtrygging er ekkert annað en það sem orðið segir – trygging á verðgildi. Lán sem bera ekki slíka tryggingu eru áhættusamari og bera því að öllu jöfnu hærri vexti. Ef verðtrygging væri bönnuð fengju t.d. húsbyggjendur ekki lán nema með töluvert hætti vöxtum en nú tíðkast. Kjör þeirra versnuðu. Það er í góðum stíl að verkalýðsforstjórinn sendi launafólki hugmynd um kjaraskerðingu á 1. maí.