Föstudagur 1. maí 1998

121. tbl. 2. árg.

Ríkisendurskoðun er mjög í tísku hjá stjórnmálamönnum þessa dagana. Ýmist hrósa þeir henni í hástert eða skamma hana blóðugum skömmum. En þótt flestir geti verið sammála um að stofnunin gegni á margan hátt þörfu hlutverki mega menn ekki gleyma því hvert verksvið hennar er. Það virðist þó stundum henda, eins og sannaðist í DV á þriðjudaginn þegar Margrét Frímannsdóttir lét hafa eftir sér að nauðsynlegt væri að Ríkisendurskoðun færi ofan í frumvarp til laga um gagnagrunna í heilbrigðisþjónustu. Vandséð er hvernig stofnun, sem fylgjast á með bókhaldi og fjárreiðum ríkisstofnana á að leggja mat á þá þætti sem mestur ágreiningur er um í gagnagrunnsmálinu, en þeir eru eins og menn þekkja spurningin um vernd persónuupplýsinga annars vegar og hins vegar hvort réttlætanlegt sé að veita einkarétt til starfsemi af þessu tagi. Spyrja má, af hverju stakk Margrét ekki upp á að málinu yrði vísað til Bankaeftirlitsins, Geislavarna ríkisins eða Fiskistofu?

Í Morgunblaðinu í fyrrdag mátti sjá Orra Vigfússon, formann Atlantshafslaxasjóðsins, veita viðtöku verðlaunum úr hendi Jane S. Shaw. Verðlaunin eru veitt umhverfisathafnamanni (enviro-capitalist) en sjóðurinn sem Orri fer fyrir hefur beitt hagrænum aðferðum við vernd laxastofnsins í Norður-Atlantshafi. Jane S. Shaw starfar hjá Political Economy Research Center í Montana í Bandaríkjunum. PERC hefur staðið framarlega í kynningu á markaðslausnum í umhverfismálum en meðal annarra sem þar starfa er Terry L. Anderson annar höfundur bókanna Free-Market Environmentalism og Enviro-Capitalist.

Í Mogga þessum var einnig grein eftir Sigurjón Benediktsson þar sem hann andmælir því að stofnun þjóðgarða sé góð fyrir umhverfið og bendir á ýmsa galla á rekstri þjóðgarðsins í Jökulsárglúfrum. Svo segir Sigurjón: „Það eina sem liggur að baki undarlegum hugmyndum um stækkun þjóðgarða er misskilin „vernd“. Náttúruvernd ríkisins hefur engan áhuga á að friða land fyrir grasbítum, nei, aðalatriðið er að mannfólkið hvorki geti né megi njóta lands. Stofnanaliðið vill ekki að almenningur njóti lands og náttúru.“