Miðvikudagur 11. mars 1998

70. tbl. 2. árg.

Menntamálaráðherra hefur nú gefið Ríkissjónvarpinu grænt ljós á flutning af Laugavegi í útvarpshúsið við Efstaleiti. Ríkissjónvarpið ver árlega um 200 milljónum króna til innlendrar dagskrárgerðar. Þessi innlenda dagskrárgerð er síðasta hálmstrá þeirra sem vilja að ríkið reki sjónvarpsstöð þótt lítill vandi væri að styrkja innlenda dagskrárgerð án þess að reka dreifingarfyrirtæki eins og Ríkissjónvarpið. Rétt eins og ríkið styrkir kvikmyndagerð án þess að reka kvikmyndaver og styrkir rithöfunda án þess að reka prentsmiðju. Einfaldasta leiðin væri þó að almenningur fengi að halda fleiri krónum úr launaumslögum sínum um hver mánaðamót og gæti þá ef til vill fjölgað bíóferðum sínum og aukið bókakaup.

Flutningur Ríkissjónvarpsins í útvarpshúsið við Efstaleiti mun að öllum líkindum kosta 1.000 milljónir króna, já EITTÞÚSUND MILLJÓNIR KRÓNA eða 4.000 krónur á hvern Íslending. Þetta jafngildir framlagi Ríkissjónvarpsins til innlendrar dagskrárgerðar í fimm ár. Aðstaða Ríkissjónvarpsins við Laugaveg er vel viðunandi enda hafa öll tæki til sjónvörpunar skroppið saman undanfarin ár og nú mynda menn á vettvangi í stað þess að færa vettvanginn inn í stúdíó. Það skortir því ekki á rými. Einu rökin fyrir flutningum hljóta að vera að menn þurfi að koma eittþúsund milljónum í lóg.

Fyrir nokkrum dögum var minnst hér á þau orð David Hume að frelsið glatast sjaldan allt í einu. Ein leið til að svipta menn frelsinu er að taka sífellt stærri hluta af sjálfsaflafé þeirra. Þetta er hentugast að gera smátt og smátt undir ýmsum formerkjum og ekki sakar að hafa vel skipulagðan þrýstihóp með sér í hverju máli. Til dæmis með því að láta menn greiða félagsgjöld í Stúdentaráð, greiða fyrir flutning Ríkissjónvarpsins, borga skuldir vegna handboltaleikja,  punga út fyrir byggingu tónlistarhúss…