Fimmtudagur 12. mars 1998

71. tbl. 2. árg.

Í nýjasta hefti Business Week er sagt frá tilraunum forsætisráðherra Frakka, félagshyggjumannsins Lionel Jospin, við að koma á 35 klukkustunda vinnuviku, en nú er í gildi 39 stunda vinnuvika. Framfylgja yfirvöld þessari reglu af hörku og hefur vinnumarkaðslögreglan(!) tekið upp á því að storma inn í fyrirtæki til að koma í veg fyrir að menn vinni yfirvinnu, hvort sem um undir- eða yfirmenn er að ræða. Þessar aðgerðir vekja furðu svo ekki sé meira sagt, en sjálfsagt framhald  hlýtur að vera að jazzlögreglan, sem Leonard Cohen söng um, geri innrás í Rauðu mylluna og kanni hvort tónlistin uppfylli helstu kröfur.

Þessar ranghugmyndir félagshyggjumanna um að setja auknar hömlur á vinnumarkaðinn í þeim tilgangi að fjölga störfum eiga víðar upp á  pallborðið en í Frakklandi. Í Þýskalandi hefur til dæmis hið nýja  kanslaraefni Jafnaðarmanna, Gerhard Schröder, stutt slíkar hugmyndir. Um árangurinn þarf ekki að spyrja, í Neðra-Saxlandi þar sem hann er forsætisráðherra er atvinnuleysið tveimur prósentustigum yfir landsmeðaltali. En það eru ekki aðeins stjórnmálamennirnir sem aðhyllast þessa firru.  Þegar opinberir starfsmenn í Þýskalandi lögðu niður vinnu um daginn var í sjónvarpi rætt við einn úr þeirra röðum og hann spurður hverjar helstu kröfur þeirra væru. Jú, stytta skyldi  vinnuviku, fjölga störfum og hækka laun. Verst að ekkert af þessu fer saman.

Sjálfstæðismenn í borgarstjórn virðast staðráðnir í að tryggja R-listanum meirihluta í komandi kosningum. R-listinn hefur hækkað skatta og gjöld og farið illa með sjóði borgarinnar, svo ætla mætti að sjálfstæðismenn sæju sér leik á borði og reyndu að vinna kosningarnar í vor með ábyrgum málflutningi í fjármálum. Þann leik hafa þeir a.m.k. oft leikið áður með góðum árangri. En nú er öldin önnur. Sjálfstæðismenn virðast halda að skuldir borgarinnar greiðist helst upp með því að eyða hundruðum milljóna króna í tónlistarhús og eru með tillöguflutning varðandi byggingu þess í skipulagsnefnd borgarinnar. Hvernig væri að gefa frekar trúverðug loforð um skattalækkanir?