Svo virðist sem Páli Péturssyni félagsmálaráðherra hafi ekki líkað nektardansar…
þeir sem boðnir hafa verið á ýmsum skemmtistöðum undanfarið. A.m.k. mun hann nú hafa ákveðið að útlendingar sem hér hyggist sýna dans og leita eftir atvinnuleyfi skuli framvísa prófskírteinum úr viðurkenndum listaskólum. Nú má það vel vera nektardansinn hér hafi ekki staðið undir væntingum Páls, jafnvel verið ófagmannlega framkvæmdur, en það eitt og sér heimilar ríkinu ekki að mismuna fólki svo við veitingu atvinnuleyfa. Hver segir að fremstu listamennirnir komi allir úr viðurkenndum listaskólum? Hvað með erlenda popptónlistarmenn, á að heimta af þeim skírteini úr rappskólum? Erlendir rithöfundar, ætli þeir hafi allir fagrar prófgráður? Og hvað með íslenska listamenn er leita frægðar erlendis, viljum við að sömu reglur gildi um þá? Hvaða prófi hefur Björk Guðmundsdóttir lokið? Skyldi Halldór Laxness státa af prófi frá viðurkenndum rithöfundaháskóla?
Undanfarnar vikur hafa tvö mál, sem tengjast Reykjavíkurborg,…
vakið mikla athygli í fjölmiðlum. Annars vegar er um að ræða óánægju meðal vagnstjóra og viðskiptavina SVR með nýtt leiðakerfi fyrirtækisins. Hins vegar hefur sjónum verið beint að óvenjulegum vinnubrögðum við samningagerð út af búnaði fyrir Nesjavallavirkjun. Leiðakerfismálið er athyglisvert vegna þess að R-listinn komst til valda meðal annars vegna harðrar gagnrýni á stjórn og stefnu SVR, lofaði lægra verði og betri þjónustu. Nú hefur verðið verið hækkað og þjónustan minnkuð, og er því spurning hvað stendur eftir af upphaflegum loforðum. Nesjavallavirkjunarmálið er flóknara, en upp úr stendur þó, að borgaryfirvöld höguðu opnun tilboða og samningsgerð í kjölfar útboðs með allt öðrum og óvandaðri hætti en almennt er farið að gera kröfur til í málum af þessu tagi (og meðal annars er kveðið á um í lögum, reglugerðum og samningnum um EES). Það sem kannski er athyglisverðast við þessi mál, er að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir,borgarstjóri, hefur verið nánast alveg osýnileg í þessum málum. Þegar gagnrýni hefur komið fram opinberlega hefur hún sent fram launaða embættismenn borgarinnar og látið þá um að svara fyrir borgaryfirvöld, þótt alveg sé ljóst að endanleg ákvarðanataka og pólitísk ábyrgð í báðum þessum málum liggur ótvírætt hjá kjörnum fulltrúum. Það er að vísu skiljanlegt, að borgarstjóri, sem þarf að leggja verk sín í dóm kjösenda að ári, skuli vilja sleppa við að svara fyrir svo umdeildar og óvinsælar ákvarðanir, sem hér um ræðir.