Laugardagur 26. apríl 1997

116. tbl. 1. árg.

Lífeyrissjóðamálin eru á hvers manns vörum þessa dagana. Dagur-Tíminn…
(þar sem menn lesa miklu meira en í Mogganum) birti síðasta vetrardag svör fjögurra valinkunnra manna við spurningunni um það, hvort félagar í almennum lífeyrissjóðum eigi að fá rétt til þess að kjósa í stjórnir sjóðanna. Pétur Blöndal, alþingismaður, lýsir stuðningi við slík sjónarmið en hins vegar telja hagsmunagæslumenn núverandi kerfis ekki mikla ástæðu til þess. Framkvæmdastjóri ASÍ vísar til þess að þar ríki fulltrúalýðræði í gegnum verkalýðsfélögin og svipuð sjónarmið koma fram hjá framkvæmdastjóra Lífeyrissjóðs Norðurlands. Mesta athygli vekja þó ummæli Magnúsar L. Sveinssonar, formanns VR, formanns Lífeyrissjóðs verslunarmanna, varaþingmanns Sjálfstæðisflokksins og fyrrverandi borgarfulltrúa. Hann rökstyður óbreytt ástand með því að hann hafi aldrei fengið athugasemdir við núverandi kerfi frá sjóðfélögum og lýsir því síðan yfir, að sjóðirnir búi við mun meira lýðræði heldur en verðbréfafyrirtækin! Hér er auðvitað um fráleitan samanburð að ræða, enda er enginn Íslendingur skyldaður til að eiga viðskipti við verðbréfafyrirtæki. Hins vegar eru milli 50 og 60 þúsund landsmenn skyldaðir með lögum til að kaupa lífeyristryggingar hjá sjóði Magnúsar. Þeir sem skipta við verðbréfafyrirtækin geta flutt viðskipti sín annað ef þeir eru óánægðir með stjórnun þeirra, en þeir sem eru óánægðir með stjórn Magnúsar og félaga geta í mesta lagi skrifað kvörtunarbréf í Velvakanda eða hringt í Þjóðarsál Rásar 2. Magnús og félagar verða að skilja, að ekki verður komið á fullkomnu valfrelsi á þessu sviði, þá má búast við að kröfur um lýðræði og aukin áhrif sjóðfélaga fari mjög vaxandi, enda er lágmark að menn fái að greiða atkvæði um stjórnir félaga, sem þeir eru neyddir til að eiga aðild að.

Nú er Alþingi líka búið að fá til meðferðar frumvarpið til laga…
um skyldutryggingu lífeyrisréttinda. Eins og lesendur Vefþjóðviljans vita festir þetta frumvarp núgildandi skylduaðildarkerfi í sessi og skerðir verulega aðstæður séreignarsjóðanna, sem nú hafa örlítið svigrúm á markaðnum. Mikilvægt er að þingmenn finni fyrir þeirri gríðarlegu óánægju, sem ríkir meðal almennings vegna þessa frumvarps, og láti ekki fámennan hagsmunahóp úr ASÍ og VSÍ villa sér sýn. Þess vegna er full ástæða til þess að hver sem vettlingi getur valdið hafi samband við þingmenn sína, hringi, sendi þeim tölvupóst eða bréf, þar sem skorað er á þá að fella frumvarpið eða umbylta því. Þingmenn eru margir efins um að frumvarpið stefni í rétta átt og hörð viðbrögð kjósenda þeirra geta ráðið úrslitum um afdrif málsins.