Föstudagur 25. desember 2025

Vefþjóðviljinn 359. tbl. 19. árg.

Kaupmenn virðast að jafnaði nokkuð ánægðir með jólaverslunina í ár, að minnsta kosti má ætla það af þeim viðtölum við kaupmenn og forsvarsmenn þeirra sem Vefþjóðviljinn hefur tekið eftir undanfarið.

Efnahagslífið er á uppleið á Íslandi. Kaupmáttur hefur vaxið mjög mikið undanfarið og hugsanlega meira en stór hluti atvinnulífsins ræður við. En það skilar sér í meiri verslun. Fólk lætur meira eftir sér.

Meðal þess sem á þar hlut að máli er afnám vörugjalda, sem núverandi stjórnvöld stóðu fyrir, og hefur orðið til þess að verð mjög margra vara verður umtalsvert lægra. Annað sem skiptir máli er að ákveðið var að fella niður tolla af fatnaði og skóm. Þær breytingar taka gildi um áramótin en margar verslanir ákváðu að lækka verð hjá sér strax, í samræmi við þetta, og það skilar sér til neytenda.

Afnám almennra vörugjalda og ýmissa tolla er mikið framfaraskref og sjálfsagt að hrósa stjórnvöldum fyrir það.

En margt annað í ríkisfjármálum bíður og þar verður að gefa í á lokamánuðum kjörtímabilsins sem nú fara í hönd.

Þar eru almennar skattalækkanir efstar á blaði. Það á að halda áfram og lækka verulega þá skatta sem landsmenn borga beint til ríkis og sveitarfélaga, tekjuskatt og útsvar.

Raunar ættu stjórnvöld að gera mun betur en það. Þau ættu að tilkynna nú um áramótin að þegar núverandi ríkisstjórn lætur af völdum vorið 2017 verði búið að afnema allar skattahækkanir Jóhönnustjórnarinnar. Lækka tekjuskatt umtalsvert. Lækkja erfðafjárskatt. Lækka fjármagnstekjuskatt. Lækka veiðigjöldin. Og svo framvegis. Og það á líka að lækka hámarksútsvar sveitarfélaga.