Vefþjóðviljinn 47. tbl. 20. árg.
Í Fréttablaðinu í gær var sagt frá því að fiskimjölsverksmiðjur séu hættar að nota rafmagn til kyndingar en noti þess í stað olíu. Þetta skýrist af mikilli lækkun olíuverðs.
Verksmiðjurnar hafa farið fram á að Landsvirkjun lækki verð á raforkunni en fengið neikvætt svar. Í viðtali við Fréttablaðið sagði fulltrúi Landsvirkjunar:
Við vonum auðvitað að hreinleiki íslensku raforkunnar réttlæti hærra verð fyrir hana miðað við mengandi olíu, enda eru aðstæður á mjölmörkuðum nú mjög góðar.
Hér er skautað framhjá því að íslensku orkufyrirtækin hafa skipt á svonefndum upprunavottorðum við kola- og kjarnorkuver í Evrópu. Íslensku raforkufyrirtækin hafa með öðrum orðum selt réttinn til að kalla raforkuna „hreina“ eða „endurnýjanlega“. Þessi skrípaleikur er mögulegur vegna tilskipana Evrópusambandsins sem færir slíkar blekkingar í búning viðskipta.
Á vef Orkustofnunar er að finna upplýsingar um hversu stórtæk íslensku raforkufyrirtækin hafa verið í þessari sölu á upprunavottorðum.
Fiskimjölsverksmiðja sem myndi hætta að nota olíu og skipta yfir á íslenska raforku myndi því áfram nota 32% jarðefnaeldsneyti og svo 23% kjarnorku.
Þannig er nú „hreinleiki“ íslensku raforkunnar. Hann er bæði kolsvartur og geislandi.