Vefþjóðviljinn 2. tbl. 20. árg.
Eitt af því sem vinstri stjórnin gerði árið 2009 var að leggja hærri skatt á það bílaeldsneyti sem gefur þó frá sér skárri útblástur!
Bensín var þá skattlagt langt umfram Dieselolíu þótt almennt hafi þá verið viðurkennt að mengun frá Dieselbílum sé verri en frá bensínbílum. Dieselvélar gefa frá sér margfalt meira magn sótagna og köfnunarefnissambanda (NOx) en bensínvélar.
Nú um áramótin tóku eldsneytisgjöldin verðlagsbreytingum og enn eru tæplega 9 krónum hærri eldsneytisgjöld á bensínlítrann en Diesellítrann. Þegar virðisaukaskatti hefur verið bætt við er munurinn tæpar 11 krónur.
Þessi mengandi mismunun var víða leidd í lög í Evrópusambandinu fyrir síðustu aldamót. Það stóð auðvitað á endum að þegar ríki Evrópu fóru að vinda ofan af þessari sótsvörtu stefnu tók íslenska vinstri stjórnin hana upp.
Er nokkuð því til fyrirstöðu að afnema þessa mengandi mismunun hér?