Helgarsprokið 3. janúar 2016

Vefþjóðviljinn 3. tbl. 20. árg.

Nú er hafið það ár sem væntanlega verður síðasta heila ár þessa kjörtímabils. Þetta er síðasta færi núverandi stjórnarflokka til þess að láta að sér kveða við stjórn landsins.

Og hvað eiga þeir þá að gera?

Þeir verða að gerbreyta um áherslur. Þeir verða, nú á þriðja ári frá þingkosningunum 2013, að sýna að vinstristjórn Jóhönnu og Steingríms, Katrínar Jakobsdóttur og Össurar, sé farin frá völdum.

Á tæplega þremur árum hefur ríkisstjórnin gengið erfiðlega að draga til baka það sem ríkisstjórn VG og Samfylkingarinnar gerði til þess að koma landinu til vinstri. Ráðherrar núverandi ríkisstjórnar settust bara í ráðuneytin og höfðu greinilega ekkert sérstakt markmið með verunni þar, annað en að gera ekkert sem kynni að verða umdeilt.

Íslandsmetið var þegar einn ráðherrann ákvað að nefnd undir forystu þingmanns stjórnarandstöðunnar skyldi semja ný grundvallarlög í einum mikilvægasta málaflokki ráðuneytisins. Það átti að tryggja að stjórnarandstaðan myndi ekki gagnrýna lögin sem sett yrðu.

Frá þessu eru undantekningar. Forsætisráðherra og fjármálaráðherra voru greinilega einbeittir í því að afnema höftin og að uppfylla kosningaloforðið um „leiðréttinguna“. Það fyrra er vitaskuld jákvætt, en hitt var þó eindregið kosningaloforð svo ekki er hægt að saka neinn um að hafa þar komið aftan að kjósendum.

En stjórnvöld gera fátt til að afnema vinstrimennskuna.

Og það sem meira er. Þau leggja aldrei í hugmyndafræðilega baráttu við vinstrimennskuna. Enda er svo komið að stór hluti kjósenda heldur að stjórnarflokkarnir standi ekki fyrir skýra hugmyndafræði sem menn geta svo stutt eða barist gegn. Stjórnvöld útskýra aldrei hvers vegna skattar eiga frekar að vera lágir en háir, hvers vegna virða ber einkaeignarréttinn, hvers vegna virða ber að sem mestu leyti rétt fólks til að ráða yfir eigin lífi.

En slík barátta mun auðvitað kalla yfir menn árásir. En þeir sem taka að sér forystu stórra stjórnálaflokka og biðja fólk um að kjósa sig verða að þola þær.

Á þeim fáu mánuðum sem eftir eru af kjörtímabilinu verða stjórnarflokkanir að breyta um afstöðu.

Þeir verða að átta sig á því að andstaða vinstrimanna við stjórnarfrumvörp er gæðamerki á frumvörpunum. 

Þeir verða að lækka skatta verulega, svo fólk muni um það. Þeir eiga að segja skýrt að við lok kjörtímabilsins muni allar skattahækkanir vinstriflokkanna hafa verið afturkallaðar. Allar, ekki aðeins örlítill hluti sumra þeirra.

Þeir eiga að afnema flest þau lög sem ráðherrar Jóhönnu-stjórnarinnar létu setja. Ekki sitja bara í ráðuneytunum eins og vinstristjórnin hafði þau og taka við frumvörpum frá embættismönnunum.

Þeir eiga að stöðva pólitíska innrætingu í skólakerfinu. Til þess þarf að sjálfsögðu að afturkalla þær breytingar á aðalnámskrá sem gerðar voru á síðasta kjörtímabili.

 Núverandi ríkisstjórn hefur eitt ár til að sýna að Jóhanna, Steingrímur, Katrín Jakobsdóttir og þau séu farin frá völdum.