Vefþjóðviljinn 152. tbl. 19. árg.
Ríki og sveitarfélög þenja sig sífellt meira út. Á sama tíma minnkar hlutur einstaklingsins. Hann fær að ráða færri og færri atriðum í eigin lífi og hann þarf að borga stærri og stærri hluta tekna sinna og eigna til hins opinbera.
Þeir sem tala og tala um að stjórnmálamenn séu spilltir, embættismenn vondir og að enginn geti treyst Alþingi, virðast hins vegar ekkert sjá að því að borgararnir séu skattlagðir meira og meira til hins opinbera.
Ríkisstjórnin gerir ekki nóg til að draga úr skattheimtunni. Hún ætlar að stíga skref í tengslum við nýgerða kjarasamninga, en það skref er stutt, miðað við skattahækkanir síðustu ára.
Í Viðskiptablaðinu kemur fram að samkvæmt upplýsingum Viðskiptaráðs Íslands hafi frá árinu 2007 verið gerðar 177 skattabreytingar, af þeim hafi 132 verið til hækkunar en 44 til lækkunar.
Nánar segir í frétt blaðsins að frá árinu 2007 hafi tekjuskattur einstaklinga hækkað um 34%, útsvar til sveitarfélaga hækkað um 11%, fjármagnstekjuskattur um 100%, erfðafjárskattur um 100%, áfengisgjald hafi hækkað um 60%, kolefnisgjald á bensín og díselolíu um 100%, tryggingagjald um 37% og útvarpsgjald um 75%.
Meira og meira er tekið frá borgurunum og fært embættismönnum og stjórnmálamönnum.
Hvernig væri að fara að snúa þessu við, svo um muni?