Vefþjóðviljinn 132. tbl. 19. árg.
Breski íhaldsflokkurinn vann í síðustu viku sigur sem kom flestum á óvart, ekki síst fréttamönnum og álitsgjöfum. David Cameron verður því áfram forsætisráðherra. Á dögunum ræddi hann hvernig flokkur hans hygðist beita sér á næstu árum í ríkisstjórn.
Hann vill að flokkurinn beiti sér af krafti í þágu hins venjulega heiðvirða borgara og búi honum aðstæður til að komast áfram og bæta hag og aðstæður sínar og sinna.
Eða með orðum Camerons sjálfs:
I call it being the real party for working people – giving everyone in our country the chance to get on, with the dignity of a job, the pride of a paycheque, a home of their own and the security and peace of mind that comes from being able to support a family.
And just as important – for those that can’t work, the support they need at every stage of their lives.
Svona mættu forystumenn fleiri stjórnmálaflokka tala. Þeir mættu tala – og vinna – máli hins venjulega almenna borgara en leggja mun minni áherslu á pólitískan rétttrúnað hinna talandi stétta.
Það skiptir hinn vinnandi mann máli að skattar á launatekjur hans lækki. Það skiptir hann ekki máli að settir séu kynjakvótar í stjórnum fyrirtækja. Það skiptir hann máli að skattur á fasteignina hans verði lækkaður. Það hjálpar honum ekki að settar séu 24 milljónir af skattfé í að reisa mosku í Feneyjum. Eða þúsundir milljóna inn í Ríkisútvarpið.
Það á að lækka skatta á vinnandi fólk, auka frelsi þess til athafna, greiða niður ríkisskuldir og minnka opinbera sóun. Atvinnulífið á að fá að dafna og kaupmáttur að aukast svo sem allra flestir hafi raunhæfa möguleika á að eignast eigið þak yfir höfuðið, ef þeir svo kjósa.
Og það er ekkert að því að þeim sé rétt hjálparhönd sem þurfa á henni að halda. Þeir, sem þurfa á slíkri hjálp að halda, eiga eins og aðrir að fá tækifæri til að bera höfuðið hátt.