Vefþjóðviljinn 177. tbl. 16. árg.
Það eru frekjur víðar en í menningariðnaðinum. Íþróttaforkólfarnir eru litlu betri.
Núna var Ísafjarðarbær að semja um byggingu stúku við völlinn í bænum. Knattspyrnufélagið í bænum leikur í annarri deild – sem af markaðsástæðum er kölluð fyrsta deild og íþróttafréttamenn spila með í þeirri rangfærslu – og Knattspyrnusamband Íslands krefst þess að slík lið spili á velli sem hefur glæsilega stúku. „Undanþága fæst þó ef félagið getur sýnt fram á að stúkubyggingin sé í ákveðnu ferli“, segir í fréttum af málinu, og nú hefur slík undanþága fengist því bæjarstjórnin ætlar að opna veski útsvarsgreiðenda.
Þetta er alþekkt aðferð íþróttaforystunnar. Setja skilyrði um aðbúnað og byrja svo að herja á bæjarstjórnirnar. Þannig tekst að kreista stúkur, velli og allskyns aðbúnað út úr skuldugum sveitarfélögum. Fleiri en knattspyrnuforystan leika þennan leik. Það er engin tilviljun að ungmennasambandið fer um landið með landsmótin. Eitt árið landsmót hér, næsta skipti þarna, og alltaf þarf að „uppfylla kröfur landsmótsins“. Menn gæta þess auðvitað að fara helst ekki með landsmótið á staði þar sem búið er að uppfylla allar helstu kröfur, heldur herja á nýtt og nýtt sveitarfélag.
Fyrir nokkrum árum byrjuðu þeir að fara með unglingalandsmót um landið með sömu aðferð. Vegna móts sem haldið er eina helgi á einu sumri eyða fjársvelt sveitarfélög gríðarlegum fjárhæðum, því yfir þeim vofir sú innihaldslausa hótun að landsmótið verði bara ekki haldið. Eins og einhverjum vitibornum manni detti í hug að sú verði raunin. Sumarið 2008, mánuði fyrir bankahrun, eyddi Þorlákshöfn, lítið þorp á Suðurlandi, einum milljarði króna til að reisa viðeigandi aðstöðu til að „uppfylla kröfur unglingalandsmótsins“.
En svona verður haldið áfram svo lengi sem íþróttaforystan hamast á sveitarstjórnarmönnum útgjaldamegin, en enginn beitir sér frá hinum endanum. Sveitarstjórnarmaður veit að ef hann neitar að gefa sig fyrir íþróttaforystunni mun hún fara að leita að nýjum sveitarstjórnarmanni. Láti hann undan, þá mun enginn hætta að kjósa hann vegna þess. Sé hann staðfastur og láti ekki undan, fær hann hvergi nothæft hrós og hvergi stuðning sem munar um.
Inn á þetta spila frekjurnar.