Vefþjóðviljinn 186. tbl. 16. árg.
Það fór illa fyrir aðjúnkt. Hún lenti í grýlu.
Í viðtali við Rás 2 sagði Ásdís Olsen, aðjúnkt við Háskóla Íslands, frá því að hún hefði verið handtekin og leidd afsíðis við vegabréfaskoðun á leið sinni úr Rússlandi á dögunum, en landvistarleyfi hennar hefði runnið út, fyrir mistök. „Ég lenti í Rússagrýlunni. Í sakleysi mínu er ég að fara í gegnum vegabréfaskoðun, eins og aðrir sem voru á leiðinni heim á þessum tíma, og allt í einu er eitthvað ástand í gangi og ég er stoppuð af“, sagði Ásdís í viðtalinu.
Hver var „Rússagrýlan“? Voru það kannski óliðlegir rússneskir embættismenn og landamæraverðir? Rússarnir alltaf stirðir og leiðinlegir.
„Rússagrýlan“ er hugtak sem menn ættu að muna hvernig var notað.
Sovétríkin voru hryllilegt alræðisríki. Þau leituðust við að breiða út kommúnismann, sem kostaði hundruð milljóna manna lífið. Til að ná því markmiði var þeim mjög mikilvægt að annars vegar veikja varnir Vesturlanda og hins vegar að gera almenningsálit á Vesturlöndum afhuga því að berjast gegn útþenslu kommúnismans í öðrum heimsálfum.
Á Íslandi eins og annars staðar var tekist á. Þeir sem stóðu einarðir í baráttu fyrir varnarsamstarfi vestrænna lýðræðisþjóða voru úthrópaðir af velvildarmönnum Sovétmanna. Þeir sem einnig mæltu því bót að reynt yrði að sporna við útbreiðslu kommúnismans í fjarlægum löndum voru sérstaklega fyrirlitnir. Stjórnmálamenn, skáld, listamenn og aðrir álitsgjafar af Sovétvinakantinum úthrópuðu fólk sem öfgasama harðlínumenn þegar það reyndi að vara við hættunni af kommúnismanum. Það fólk var iðulega sakað um að halda „Rússagrýlu“ á lofti.
„Rússagrýlan“ var hugtak sem notað var til að gera það fólk ótrúverðugt sem varaði við þeirri helstefnu sem heimurinn hefur séð versta. Margir vilja að allt sem þeirri baráttu tengist gleymist, ekki síst barátta íslenskra vinstrimanna, skálda þeirra og fræðimanna, fyrir málstað kommúnismans. Þeir vilja auðvitað að nýjar kynslóðir hafi ekki hugmynd um hvernig „Rússagrýlan“ kom til. Þeim þætti ágætt ef þær héldu að hún snerist um vesen í Rússlandi. Útrunnið landvistarleyfi og svona.