Föstudagur 15. júní 2012

Vefþjóðviljinn 167. tbl. 16. árg.

Þá er alþingi búið að samþykkja að veitt verði um níu milljarða króna ríkisábyrgð á gangagerð gegnum Vaðlaheiði. Frekjurnar höfðu sitt fram.

Sveitarstjórnarmenn á Norðurlandi urðu gríðarlega reiðir þegar þingmenn vildu fá úttekt á þeim útreikningum sem sagðir voru búa að baki framkvæmdinni. Sveitarstjórnarmennirnir, og aðrir baráttumenn fyrir gangagerðinni, heimtuðu að þingmenn samþykktu ríkisábyrgðina tafarlaust og treystu einfaldlega útreikningum gangamanna. Ekkert þyrfti að reikna frekar, alveg ljóst væri að göngin stæðu undir sér.

Vegna þessa vill Vefþjóðviljinn koma með tillögu sem sveitarstjórnarmennirnir hljóta að fallast á. Þar sem að þeir telja engan vafa á þeim útreikningum sem sýna að göngin „standi undir sér“ og að ekki falli króna á ríkið, þá er varla mikil áhætta fyrir þá að veita ríkinu bæjarábyrgð.

Er ekki sanngjarnt, úr því að útreikningarnir eru öryggir og að það var alger óþarfi og í raun hneyksli að þingið færi eitthvað að skoða þá, að bæjarstjórnirnar fyrir norðan ábyrgist ríkinu það formlega að bæta ríkinu allan þann kostnað sem falla kann á ríkið vegna málsins?

Ef útreikningarnir ganga ekki eftir og ríkið þarf að bera kostnað vegna ábyrgðarinnar, þvert gegn því sem norðlenskir sveitarstjórnarmenn hafa fullyrt mánuðum saman, þá endurgreiða norðlensku bæjarstjórnirnar ríkinu það fé. Þá ættu allir að vera ánægðir. Göngin verða grafin, lánveitendur fá sitt til baka vegna ríkisábyrgðarinnar og það lækkar vextina, og ríkið fær svo allt sitt frá sveitarstjórnunum. Þeir einu sem myndu tapa eru útsvarsgreiðendur, en þar sem sveitarstjórnunum er sama um skattgreiðendur á landinu öllu er þeim líklega jafn sama um sína eigin.

Hvað gæti mælt á móti því að sveitarstjórnirnar fallist á þessa tillögu? Þær hljóta sjálfar að treysta þeim útreikningum sem þær kröfðust að þingmenn treystu.