Mánudagur 9. júlí 2012

Vefþjóðviljinn 191. tbl. 16. árg.

Lengi tekur stjórinn við. Hann var efnahagsráðherra, viðskiptaráðherra, landbúnaðarráðherra og sjávarútvegsráðherra. Nú er hann líka orðinn iðnaðarráðherra. Hvert liggur leið hans næst? Fylgjumst öll með ævintýrum þrekmennisins frá Þistilfirði.
Lengi tekur stjórinn við. Hann var efnahagsráðherra, viðskiptaráðherra, landbúnaðarráðherra og sjávarútvegsráðherra. Nú er hann líka orðinn iðnaðarráðherra. Hvert liggur leið hans næst? Fylgjumst öll með ævintýrum þrekmennisins frá Þistilfirði.

Alltaf leggst meiri og meiri ábyrgð á sömu herðarnar. Öll sanngirni er þar löngu horfin.

Nú var verið að bæta iðnaðarráðuneytinu á önnum kafinn Steingrím J. Sigfússon formann vinstrigrænna. Hann var þegar orðinn ráðherra efnahagsmála, viðskiptamála, sjávarútvegsmála og landbúnaðarmála, og nú er iðnaðarmálunum bætt á hann. Lengi tekur stjórinn við.

Hvað ætli álitsgjafar og fjölmiðlamenn hefðu sagt á árum áður ef aðrir flokksleiðtogar hefðu safnað svo að sér valdastöðum? Ætli hneykslunin hefði ekki enst þeim í mörg ár?

Og hvernig er með þá sem yfirleitt hafa kynjahlutföll á heilanum? Af hverju segja þeir ekkert um verkaskiptingu á ríkisstjórn? 

Ráðherradómur snýst um meira en bíl og titil. Hann snýst um að stýra ráðuneyti og málaflokkum. Og hvernig hefur ríkisstjórn jafnréttisflokkanna skipt ráðuneytum milli manna? Hvað hefur í raun gerst með sameiningum ráðuneyta?

Steingrímur J. Sigfússon er kominn með efnahagsmál, viðskiptamál, sjávarútvegsmál, landbúnaðarmál og iðnaðarmál. Hann er einnig staðgengill forsætisráðherra.

Ögmundur Jónasson er með dómsmálin, samgöngumálin og sveitarstjórnarmálin.

Guðbjartur Hannesson er kominn með bæði félagsmálin og heilbrigðis- og tryggingamálin.

Þarna hefur umsvifamestu ráðuneytunum öllum verið skóflað til þessara þriggju ágætu karla. En hvaða viðbót fengu konurnar? Hverju var bætt við umhverfisráðuneyti Svandísar Svavarsdóttur og menntamálaráðuneyti Katrínar Jakobsdóttur

Engu.

En er Jóhanna Sigurðardóttir ekki forsætisráðherra og Oddný Harðardóttir fjármálaráðherra? Jú, en menn sáu við því með því að taka efnahagsmál ríkisins og setja þau undir Steingrím J. Sigfússon viðskiptaráðherra og kalla viðskiptaráðuneytið nú efnahags- og viðskiptaráðuneytið.

Í staðinn fékk Jóhanna jafnréttismálin.