Miðvikudagur 11. janúar 2012

Vefþjóðviljinn 11. tbl. 16. árg.

Fjölmiðlar hér á landi og annars staðar segja nú daglegar fréttir af púðum sem konur hafa látið græða í barm sér, en hafa síðan sumir tekið að leka. Hér munu vera rúmlega fjögur hundruð konur með púða af þessari tegund og skiljanlega er þeim ekki skemmt.

Nú er þess krafist að ríkið greiði kostnaðinn af því að fjarlægja púðana. Stjórnvöld eru þegar byrjuð að samþykkja slíkt varðandi þá púða sem farnir eru að leka, og líklega er þess skammt að bíða að sama muni gilda um hina. Og eins og venjulega í íslenskri umræðu þá eru sum grundvallaratriði aldrei rædd. Hvað með bæði vald fólks yfir eigin líkama og þá einnig ábyrgð þess á því sem það lætur gera við hann?
Mál sem þetta er að sumu leyti dæmigert fyrir samfellda aukningu opinberra útgjalda. Á aðra hliðina eru fjögur hundruð konur og fjölskyldur þeirra, skiljanlega áhyggjufullar enda vond tilhugsun að hafa inni í sér lekandi sílikonpúða. Á hina hliðina er hins vegar enginn.

Það skiptir litlu hvaða krafa er gerð um ný ríkisútgjöld. Jafnvel í efnahagsþrengingum þá eru fáir sem standa í því að andmæla þeim. Auðvitað vorkenna menn konunum með iðnaðarsílikonið í barminum og kunna varla við að berjast gegn því að þeim verði rétt hjálparhönd skattgreiðenda, en þetta sama á við á nær öllum sviðum. Nú á til dæmis að grafa göng um Vaðlaheiði og blasir við að menn ætla að knýja þá framkvæmd í gegn með mjög hæpnum forsendum og líklega lenda háar fjárhæðir á ríkinu. Enginn virðist segja neitt, nema reyndar einn verkfræðingur sem ekkert verður gert með. Sjálft Alþingi virðist ekkert ætla að gera með að ríkisendurskoðandi neitar að vinna úttekt á málinu, eins og þingnefnd hafði falið honum, og ber við fullkominni tylliástæðu.

Það er ekki að undra að skattar hækki, ríkisútgjöld þenjist út og ríkið sé aftur farið að skulda stórfé, þegar hinn almenni skattgreiðandi rís aldrei upp gegn útgjaldahugmyndunum.