M argt hefur gengið til verri vegar í íslenskum þjóðmálum á síðustu árum. Eitt af því sem myndi flokkast með því hvimleiðasta er skjótur uppgangur og á stundum alger yfirgangur þvæludreifara. Slíkir menn dreifa yfir landsmenn ýmsum ranghugmyndum sínum, misskilningi, hálfsannleik, ósanngirni og stundum hreinum og klárum rógi, og eiga mikinn þátt í því hversu ranga mynd margir gera sér af ástandi mála, orsökum þess og mögulegum úrræðum. Skýrt dæmi um afleiðingar langrar þvæludrefingar er stjórnarskrármeinlokan sem nú geisar í gaspurheimum og sökk lægst með „stjórnlagaráði“ sem nú fundar á hverjum degi og allar fréttir benda til að sé jafnvel enn undarlegri samkoma en þó mátti búast við.
Þvæludreifaranir eru yfirleitt vissir í sinni sök, mæta hiklausir í viðtalsþætti eða skrifa fullyrðingagreinar þar sem allskyns misskilningur er hafður sem undirstaða fullyrðingaflóðs sem lítið lát er á. Þvæludreifari leiðréttir sig aldrei og fáa lætur hann njóta sannmælis. Þvæludreifarar hafa auðvitað lengi verið á kreiki en síðustu ár hafa verið uppgripatími hjá þeim. Síðustu árin fyrir bankahrun höfðu þeir mjög færst í aukana, við síminnkandi viðnám annarra, en eftir þrot bankanna fengu þeir nær frjálsar hendur þar sem fáir eða engir virtust leggja í þá orrahríð sem jafnan fylgdi því að andmæla slíkum mönnum.
Það er eitt brýnasta verkefni íslenskra þjóðmála nú að fólk rísi upp gegn þvæludreifurunum.
Í dag eru tuttugu ár síðan Sjálfstæðisflokkur og Alþýðuflokkur mynduðu ríkisstjórn. Markar hún upphaf eins allra mesta hagsældarskeiðs í sögu landsins. Um það segir Jakob F. Ásgeirsson í ritstjóraspjalli nýjasta heftis tímaritsins Þjóðmála, en vorhefti þess er nú komið í Bóksölu Andríkis
Um þessar mundir eru tuttugu ár liðin frá því að Davíð Oddsson varð forsætisráðherra í Viðeyjarstjórninni svokölluðu. Hann var síðan forsætisráðherra samfellt í fjórtán ár, lengur en nokkur annar. Óhætt er að segja að forsætisráðherratíð Davíðs hafi verið eitt mesta framfaraskeið í sögu þjóðarinnar. Íslenskt samfélag tók stakkaskiptum. Áratugalangt sjóðasukk var upprætt, dregið var mjög úr valdi stjórnmálamanna í atvinnulífinu, ríkisfyrirtæki voru einkavædd og skattar lækkaðir á fyrirtæki og einstaklinga. Skikki var komið á stjórn ríkisfjármála og skuldir ríkisins voru nánast greiddar upp. Stjórn efnahagsmála var til fyrirmyndar miðað við önnur skeið í sögu landsins frá því að sjálfstæði var endurheimt, verðbólga var í lágmarki og gengi krónunnar stöðugt. Allt hafði þetta í för með sér fjölbreytt og arðvænlegt atvinnulíf sem leiddi til yfir 30% kaupmáttaraukningar almennings. Miklar réttarbætur voru gerðar og útgjöld til velferðar og menntamála jukust stórlega að raungildi. Mikil gróska var í menningarlífi landsins. Þannig mætti áfram telja. Þetta er tímabil sem allir landsmenn eiga að minnast með ánægju og stolti. Það er fullkomin skrumskæling að kenna það við hrun bankanna. Sjálfstæðismenn eiga óhikað að sækja hugmyndir og baráttuþrótt í þetta tímabil við nauðsynlega endurreisn flokks síns. |