Mánudagur 9. ágúst 2010

221. tbl. 14. árg.

B andaríska tímaritið Time birti á dögunum forsíðumynd af átján ára gamalli afganskri stúlku, sem vakið hefur mikinn óhug víða. Stúlkan hafði, eins og svo ótal stöllur hennar í þeim heimshluta verið ung neydd í hjónaband sem ekki færði henni annað en þrældóm og misþyrmingar. Henni tókst að flýja en eiginmaðurinn þefaði hana uppi, fór með hana til baka, inn á áhrifasvæði talibana, og refsaði henni í samræmi við brotið; skar af henni nef og eyru.

Stúlkur og konur í þessum heimshluta búa ósjaldan við skelfilegar aðstæður. Nauðungarhjónabönd, alger kúgun á heimili og nær algert áhrifaleysi um eigið líf, eru hversdagslegur veruleiki óhugnanlega margra þeirra. Og þótt margir Vesturlandabúar forðist að skilja það, þá breytist það lítið sem ekkert þótt þessar fjölskyldur flytji til Vesturlanda. Heimamenningin er nefnilega tekin með og forðast í lengstu lög að aðlagast vestrænum siðum. Og svo merkilega vill til, að á Vesturlöndum eru það einmitt þeir, sem á heimavelli kalla sig femínista og mannréttindasinna, sem minnstar áhyggjur hafa af því, heldur leggja einmitt áherslu á „fjölmenningu“.

Þessi óhugnanlegi veruleiki er nær Íslendingum en marga þeirra grunar. Í Bóksölu Andríkis er til sölu sláandi bók, Dýrmætast er frelsið, þar sem fjallað er um ástandið á Norðurlöndum, Noregi þó fyrst og fremst, og frásagnirnar þar ættu að vekja sérhvern sæmilegan lesanda upp með andfælum. Bókin kostar þar aðeins 1.990 krónur, sem verður enn hagstæðara verð þegar minnt er á, að fyrri hluta ágústmánaðar fylgir eins árs kynningaráskrift að Þjóðmálum með hverjum bókakaupum, eins og áður hefur verið sagt frá.

En íslenskir femínistar eru flestir, eins og skoðanasystur þeirra annars staðar á Norðurlöndum, nær blindir á kúgunina sem þessar erlendu kynsystur þeirra verða fyrir. Þannig hefur einn áberandi íslenskur femínisti, Halla Gunnarsdóttir, lýst því opinberlega, og það í ritgerð, að það sé „mikil einföldun“ að konur í Íran hafi það svo mikið verra eftir byltingu íslamista árið 1979. „Fyrir byltinguna sagði ríkið að konur mættu ekki vera með slæðu, eftir byltingu segir ríkið að konur eigi að vera með slæðu. Þetta er sama kúgunin.“

Þegar íslenskir sérfræðingar í kúgun kvenna, tíðir álitsgjafar, tala svo, þá er kannski ekki að undra að bók eins og Dýrmætast er frelsið sé af og til kynnt sem nokkuð mikilvæg lesning.