Borgin er nú mjög fjárvana og ætti því að gera gott deiliskipulag af Vatnsmýrinni. Selja svo lóð sína þar fyrir a.m.k. 70 milljarða kr., eins og prófessor Þorvaldur Gylfason sagði í Silfri Egils 5. okt. 2008. |
– Gunnar H. Gunnarsson umferðaröryggisverkfræðingur, í grein í Morgunblaðinu 30. janúar 2010. |
Þ essi orð Gunnars H. Gunnarssonar eru athyglisverð og skemmtileg, með þeim fyrirvara að vísu að hann hafi rétt og sanngjarnt eftir prófessornum í sjónvarpsþættinum. Mjög skemmtileg eiginlega.
Hvers vegna?
Hvernig var aftur ástandið í landinu sunnudaginn 5. október 2008? Þá helgi sátu fréttamenn um ráðherrabústaðinn þar sem forkólfar ríkisstjórnarinnar sátu neyðarfundi með oddvitum lífeyrissjóða, bankastjórum og svokölluðum aðilum vinnumarkaðarins. Grafalvarleg staða bankakerfisins var að renna upp fyrir jafnvel lokaðasta fólki. Í vikunni áður hafði Glitnir komist í þrot, tveimur dögum seinna fór Landsbankinn og Kaupþing daginn eftir.
Og þá sat Þorvaldur Gylfason í Silfri Egils og ræddi um að borgin gæti selt byggingarlóð í Vatnsmýri fyrir „a.m.k. 70 milljarða króna.“ Maðurinn sem sá allt fyrir, svo vitnað sé í bloggfróðleik.
Nokkrum dögum eftir þáttinn var bankakerfið komið í þrot og yfir byggingariðnað lagðist það frost sem enn stendur. Sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu þurftu að greiða milljarða króna fyrir úthlutaðar lóðir sem væntanlegir byggjendur skiluðu.
En Vefþjóðviljinn er vissulega ekki með þennan þátt fyrir hugskotssjónum, heldur byggir hér á endursögn verkfræðingsins. Ef sú endursögn er rétt og sanngjörn þá er hún enn einn glaðningurinn fyrir þá sem af einhverjum ástæðum langar mikið til að trúa að Þorvaldur Gylfason hafi séð allt fyrir. En hvort sem er, þá er nokkuð víst að ekki mun minnka straumurinn af Þorvaldi Gylfasyni í umræðuþætti Ríkisútvarps og sjónvarps næstu misserin, enda fábreytnin í viðmælendavali þar með hreinum ólíkindum. Þegar úttekt verður gerð á framgöngu ríkisfjölmiðlanna, bæði fréttamanna og þáttastjórnenda, misserin fyrir og eftir bankahrun, þá verður einsleitni viðmælenda eitt af því sem mun vekja sérstaka athygli.