Fimmtudagur 4. febrúar 2010

35. tbl. 14. árg.

Þ að var kona í útvarpinu í gær sem reynt var að pumpa um stuðning við einhvers konar opinbert eftirlit með komu ísbjarna til landsins. Hún benti hins vegar hæversklega á að það gerðist nú ekki á hverju ári að ísbirnir gengju hér á land og hæpið væri að koma auga á birnina á íshröngli á hafi úti. Hvítabjarnaeftirlit yrði því aldrei annað en falskt öryggi.

Það virðist ekkert mega bera út af án þess að fjölmiðlamenn reki hljóðnema framan í einhver sérfræðinginn eða stjórnmálamanninn og spyrji skjálfandi röddu hvort ekki sé nauðsynlegt að koma á fót eftirliti og setja reglur um málið. Undantekningarlítið er skipuð nefnd í kjölfarið sem undantekningarlaust leggur til reglur og eftirlit.

Smám saman fær hinn almenni maður það á tilfinninguna að í flestum málum vaki ríkisvaldið yfir velferð hans með hvers kyns eftirliti og neytendavernd. Menn verða værukærir. Nei það getur ekki verið að hér í fjörunni sé hungraður ísbjörn, varla getur ísbjarnaeftirlitið hafa brugðist.

Það má taka nærtækara dæmi. Skuldatryggingaálag á íslensku bankana hækkaði jafnt og þétt frá miðju ári 2007 og fram eftir árinu 2008. Á sama tíma gerðu svonefndar eftirlitsstofnanir. íslenskra sem erlendar, sitt til að fela vandann og lengja í snörunni. Stjórnmálamenn fóru í áróðursferðir um allar jarðir fyrir bankana. Fjármálaeftirlitið sagði bankana bæði standast „álagspróf“ sitt í ágúst 2007 og 2008. Ráðherrar lofsungu bankana í veislum þeirra erlendis. Seðlabankar hér og erlendis reyndu að halda í þeim lífinu með lánveitingum.

Hverju áttu til að mynda almennir hluthafar, innlánseigendur og skuldabréfaeigendur að trúa? Virðulegum eftirlitsstofnunum og ráðherrum sem eru í aðstöðu til að láta fjölda undirstofnana og sérfræðinga skoða málið? Eða einhverju undarlegu Credit Default Swap fyrirbæri úti á markaðnum sem flestir voru að heyra um í fyrsta sinn?

Það er alveg góð og gild spurning hvort Íslendingar og aðrir hluthafar og viðskiptavinir íslensku bankanna hefðu ekki komið miklu betur út úr bankahruninu ef hér hefði nákvæmlega ekkert eftirlit verið til staðar, ekkert fjármálaeftirlit, engin seðlabanki og engir ráðherrar með rosalegar yfirlýsingar. Þeir sem áttu hagsmuna að gæta í íslensku bönkunum voru ótrúlega lengi að horfast í augu við vanda þeirra.

Þann sofandahátt má án efa skrifa að verulegu leyti á þá staðreynd að hér var mikið eftirlit og flókið regluverk sem skapaði falskt öryggi. Því miður treysti almenningur á það.