E itt af því sem frambjóðendur og aðrir talsmenn Borgarahreyfingarinnar töluðu sem oftast um til marks um ágæti hennar, fyrir kosningar, var að hún væri ekki hefðbundinn stjórnmálaflokkur og yrði aldrei. Hún væri sett fram vegna nokkurra málefna og myndi síðan leggja sjálfa sig niður. Þetta félag er nú tæplega hálfs árs gamalt og ákvað um helgina að breyta sér í hefðbundinn stjórnmálaflokk og mun nú stefna að því að koma mönnum í sveitarstjórnir.
Þetta var ákveðið eftir miklar deilur á aðalfundi, sem tæplega eitthundrað manns munu hafa sótt. Þessi ákvörðun þarf ekki að koma á óvart. Það er miklu fyrirhafnarminna fyrir menn, sem vilja ná kosningu, að tryggja sér framboðslista og vænleg sæti, með því að mæta með nokkra tugi manna á aðalfund Borgarahreyfingarinnar, heldur en að þurfa að fara í mörgþúsundmanna prófkjör hjá Samfylkingunni eða nokkurhundruð manna prófkjör hjá Vinstrigrænum, þar sem menn þurfa annað hvort að ná sæmilegu fylgi eða framvísa stúdentaskírteini frá stjórnmálafræðiskor Vísindaháskóla alþýðu í Austur-Berlín.
En fyrir hverju ætlar svo Borgarahreyfingin að berjast í sveitarstjórnum? Ekki hefur hún enn sagt mikið um sveitarstjórnarmál, en nýr stjórnarformaður átti þó í gær orðin „aukið gegnsæi“, sem er afar vinsælt. En þegar saman fara Borgarahreyfingin og krafan um aukið gegnsæi, þá rifjast auðvitað upp leynisamningurinn sem hreyfingin gerði við vinstristjórnina strax eftir kosningar.
Þegar tillaga ríkisstjórnarinnar um inngöngubeiðni í Evrópusambandið var afgreidd á alþingi, greiddu þrír af fjórum þingmönnum Borgarahreyfingarinnar atkvæði gegn tillögunni, en studdu tillögu um þjóðaratkvæðagreiðslu um ákvörðunina. Samfylkingin og fréttastofa Ríkissjónvarpsins brugðust bálreiðar við og sökuðu þingmennina þrjá um samningsrof, því Borgarahreyfingin hefði gert leynisamkomulag við ríkisstjórnina um að styðja málið, gegn því að fá aukamann í þingnefndum á sumarþinginu. Jóhanna Vigdís Hjaltadóttir tók Birgittu Jónsdóttur í þriðjugráðu-yfirheyrslu vegna þessa, en ekki um heilindin sem fælust í því að nýja gegnsæis-framboðið gerði slíkt leynisamkomulag við ríkisstjórnina, heldur um það hvað það ætti að þýða að makka ekki með ríkisstjórninni. Fjórði þingmaðurinn, sem greiddi atkvæði gegn þjóðaratkvæðagreiðslu, en með inngöngubeiðni, hann þótti hetja á fréttastofunni.
Borgarahreyfingin barðist fyrir auknum þjóðaratkvæðagreiðslum fyrir kosningar og vildi meira að segja að ekki nema 7% kjósenda gætu vísað lögum til þjóðaratkvæðis og leyst upp alþingi. Gamanlaust, fyrir kosningar vildi Borgarahreyfingin að 7% landsmanna gætu með undirskrift sinni knúið fram þingrof. Frétamenn gættu þess vitaskuld að gera ekkert til að vekja athygli á þessari hugmynd og spurði forkólfa framboðsins aldrei um hana. Eftir kosningar, finnst fréttamönnum blasa við að sá þingmaður Borgarahreyfingarinnar, sem greiddi atkvæði gegn tillögu um þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort sækja skyldi um aðild að Evrópusambandinu, hefði verið trúr stefnu flokksins, en hinir þrír, sem vildu þjóðaratkvæði, ekki.
U m helgina lést vísindamaðurinn og nóbelsverðlaunahafinn Norman Borlaug, kominn hátt á tíræðisaldur. Því hefur verið haldið fram með sterkum rökum að með uppgötvunum sínum hafi hann forðað hundruðum milljóna manna frá hungurdauða, en hann er nefndur faðir „grænu byltingarinnar“, hinna snöggu umskipta í landbúnaði á sjöunda áratugnum þegar framleiðni jókst með ævintýralegum hætti með kynbótum á helstu korntegundum.
Fyrir rúmum níu árum tók tímaritið Reason viðtal við Borlaug, og í endursögn Vefþjóðviljans frá þeim tíma sagði
Reason spyr Borlaug meðal margs annars um lífrænan landbúnað og þá fullyrðingu margra að hann sé betri fyrir heilsu fólks og umhverfið. Og Borlaug svarar: „Þetta er fráleitt. Þótt við nýttum allan lífrænan úrgang, húsdýraáburð, lífrænt sorp frá manninum og rotnandi plöntuleifar, til að bæta jarðveg væri ekki mögulegt að fæða meira en 4 milljarða manna. Auk þess myndi lífrænn landbúnaður kalla á aukið landrými og við yrðum að ryðja margar milljónir ekra af skógi til þess. Við notum um það bil 80 milljónir tonna af köfnunarefnisáburði á ári. Ef við ætlum að framleiða þetta magn með lífrænum hætti þurfum við 5 til 6 milljarða nautgripa til að fá nægan húsdýraáburð. Hvað ætli við þyrftum eiginlega að fórna miklu landi til að fæða allar þessar skepnur? Þetta stenst auðvitað ekki.“
Og Borlaug bætir við: „Ef fólk vill endilega trúa því að lífrænt ræktaðar afurðir séu bætiefnaríkari getur það gert það mín vegna. Það eru hins vegar engar rannsóknir sem styðja þá fullyrðingu að lífrænar afurðir séu hollari. Planta gerir engan greinarmun á því hvort nítrat jón kemur úr tilbúnum áburði eða lífrænum úrgangi. Ef einhverjir neytendur trúa því að það sé betra fyrir heilsuna að kaupa lífrænar afurðir bið ég þeim Guðs blessunar. Þeir mega kaupa þær og borga meira, þeir hafa fullt frelsi til þess. En látið það vera að segja öðrum að við eigum möguleika á því að fæða mannkynið án tilbúins áburðar. Að öðrum kosti fer gamanið að kárna.“ |