M argrét Tryggvadóttir formaður „Heyfingarinnar“ afþakkar samkvæmt fréttum fjölmiðla 50% álag ofan á þingfararkaup, sem landslög kveða á um að henni skuli greitt sem formanni stjórnarmálaflokks, sem jafnframt er alþingismaður. Um er að ræða rúmlega 250 þúsund krónur á mánuði eða rúmlega 3 milljónir króna á ári.
Nú veit Vefþjóðviljinn ekki hvernig mönnum gengur að afþakka laun sem þeim eru ákveðin með lögum, en trúlega er það hægt. Ögmundur Jónasson sagðist í vor ætla að afþakka ráðherralaunin sem honum voru ákveðin ofan á þingfararkaupið en ekki hefur komið fram opinberlega hvort honum tókst það. Ögmundur getur þá væntanlega aðstoðað Margréti við að finna lagatæknilega lausn á vandamálinu. Hér er nefnilega ekki um einfalt mál að ræða, því ekkert í lögunum eða lögskýringargögnum gefur vísbendingu um það hvernig með skuli fara ef einstakir ráðherrar eða formenn stjórnmálaflokka vilja ekki taka við þeim greiðslum sem lög kveða á um.
Þannig má ætla að Steingrímur J. Sigfússon hafi alveg staðið ráðþrota frammi fyrir þessu vandamáli frá ársbyrjun 2004 til 1. febrúar 2009 eða í meira en fimm ár. Eftirlaunalögin svokölluðu, sem innihéldu ákvæðið um aukagreiðslurnar til flokksformanna, tóku gildi þann 1. janúar 2004 og ekki er annað vitað en að hann hafi tekið við þeim allt þar til hann varð ráðherra í byrjun árs. Þessar aukagreiðslur til Steingríms gætu hafa numið rúmlega 15 milljónum króna á þessu tímabili og verður því vart trúað að hann hafi ekki gert ítrekaðar tilraunir til að losa sig við þær með einhverjum hætti. Að vísu hefur ekkert komið fram opinberlega um Steingrímur hafi reynt að stöðva þessar millifærslur úr fjárhirslum ríkisins til sín, en ekki má leggja of mikið upp úr því, enda er Steingrímur sem kunnugt er hógvær maður og lítið fyrir að berja sér á brjóst í fjölmiðlum.