Helgarsprokið 23. desember 2007

357. tbl. 11. árg.

L

Eitthvað myndi heyrast í Frank Constanza í dag, ef honum væri boðið upp á kæsta skötu.

íkt og margir aðdáendur sjónvarpsþáttanna sem kenndir eru við Seinfeld  vita, þá er haldið upp á Festivus í dag. Festivus er „hátíð okkar hinna“ að sögn Franks Constanza, sem hafði fengið nóg af verslunaræðinu í kringum jólin og ákvað að stofna til eigin hátíðarhalda 23. desember, sem hann nefndi Festivus.

Hátíðarhöldin eru tiltölulega einföld. Í raun er ekki krafist neinnar fylgni við tiltekna siði og venjur, en alla jafna er vinsælt að koma fyrir óskreyttri álstöng á góðum stað, sem táknar andstæðu alls prjálsins í kringum jólatré og gjafapakka. Einnig þykir ómissandi að gera harma sína heyrinkunna, sem felst í því að úthúða viðstöddum jafnt og óviðstöddum ættingjum, vinum, vandamönnum og raunar öllum og öllu sem viðkomandi telur hafa valdið sér sárum vonbrigðum síðasta árið. Að þessum fúkyrðaflaumi loknum er svo sérstaklega ekki fallist í faðma. Allt mjög í anda hinnar kexrugluðu Constanza fjölskyldu.

Töluverðar líkur eru til þess að Festivus hátíðin falli nú sem endranær í skuggann af Þorláksmessunni hér á Fróni, en ekki fyrir þær sakir að Þorláksmessan sé laus við skringilega siði. Má ekki fullyrða, að mörgum útlendingum þykir sá siður æði undarlegur að leggja sér til munns kæsta skötu – og myndu þeir ekki frekar vilja gera harma sína heyrinkunna, ef þeir lentu einhvern tímann í þeirri furðulegu stöðu að neyðast til þess að velja þarna á milli? Það er jú helst til fátt við útlit og fnyk kæstu skötunnar sem gefur til kynna að hana eigi að borða.

Til að sameina þetta tvennt, harmakvein og ódaun, er sem fyrr heppilegast að beina sjónum að Alþingi, sér í lagi þeirra afurð löggjafans sem nefnd hafa verið lög um fjármál stjórnmálasamtaka.

Fyrr á árinu var þess getið hér að það kynni að vera „[…] áhugavert, en sennilega ekki gaman, að sjá hvernig framlög stjórnmálaflokka til sín sjálfra munu þróast næstu ár. […] Grunsemdir Vefþjóðviljans eru þó þær, að þrátt fyrir rómaða hófsemi alþingismanna muni sjálftaka þessi vera í litlum tengslum við aðra verðlagsþróun. Megi allar góðar vættir tryggja, að vefritið hafi rangt fyrir sér hvað það varðar.”

Fjárlög 2007 voru samþykkt 6. desember í fyrra og ef lesendur rýna í lið 1.18 á myndinni hér fyrir neðan sést að framlög til stjórnmálaflokka námu 310 milljónum.

Í nýsamþykktum fjárlögum 2008, undir sama lið, sést hvaða breytingum þessi upphæð hefur tekið á einu ári:

Upphæðin hefur sem sagt hækkað í 371,5 milljón, sem er hækkun upp næstum 20%. Framlag ríkisins til stjórnmálasamtaka fer því úr kr. 849.315,- á dag á yfirstandandi ári í kr. 1.015.027,- á dag á næsta ári… og hefði verið ögn hærra ef 2008 væri ekki hlaupár.

Þó svo verðbólgan hafi ekki verið með lægsta móti á árinu, þá náði hún alls ekki 20% og því ljóst að það verður einmitt seint treyst á hófsemi alþingismanna í þessum efnum. Vefþjóðviljinn bíður lítt spenntur eftir því að sjá hver þessi upphæð verður að ári, enda litlar líkur á því að hún standi í stað og þaðan að síður líklegt að hún lækki. Mikið væri nú samt ánægjulegt ef vefritið hefði rangt fyrir sér um það.