A lþingismaðurinn Birkir Jón Jónsson á nú í vök að verjast vegna þátttöku sinnar í pókerspili. Kröfur eru uppi um að hann segi af sér þingmennsku vegna þess að hann brjóti í fyrsta lagi lög og setji að auki slæmt fordæmi um hættulega hegðun en ekki er síður ólmast yfir því að hann hafi hagnast á tiltækinu og eigi þá líklega að skila uppskerunni til ríkisins. Hann er þannig sagður allt í senn, brotamaður, fórnarlamb og maðurinn sem hagnaðist á öllu saman. Fjölhæfur maður Birkir Jón.
Fjárhættuspil eru einn af þessum óteljandi hlutum sem menn geta lent í öngstræti með. Þau mætti í mörgum tilvikum kalla löst, ljóð á ráði manna. Það má auðvitað segja um allt sem menn geta misst tökin á og það er ansi margt. Freistingarnar eru margar.
En á ríkið að skipta sér af löstum manna, banna þá og refsa þeim sem falla í freistni? Í tilefni 10 ára afmælis Vefþjóðviljans á síðasta ári gaf Andríki út ritið Löstur er ekki glæpur eftir bandaríska lögfræðinginn og ævintýramanninn Lysander Spooner. Bókin svarar því afdráttarlaust neitandi að ríkið geti bannað mönnum annað en það sem hver einstaklingur hafi rétt til að sporna gegn í fari annarra. Ríkið þiggur vald sitt frá einstaklingunum og enginn þeirra hefur meðfæddan rétt til að ryðjast inn í spilasal, hrifsa spilin úr höndum spilamanna og gera þeim refsingu fyrir. Ríkið getur því ekki tekið sér þennan rétt. Öðru máli gegnir til að mynda um vörn gegn árás og ofbeldi. Hver maður hefur rétt til að verja sig gegn ofbeldi og kúgunum annarra; gegn glæpum. Þennan rétt til sjálfsvarnar geta einstaklingarnir framselt ríkinu og gera það raunar í flestum þjóðfélögum.
Spooner segir því markmiðið með refsingum fyrir lesti andstætt markmiðinu með því að refsa fyrir glæpi. Með refsingum fyrir glæpi er verið að vernda frelsi manna fyrir ótroðningi annarra. Með refsingum eða afskiptum af löstum er einmitt verið að troða á mönnum:
Markmiðið með refsingu fyrir glæpi er því ekki aðeins að öllu leyti annað en með refsingu fyrir lesti heldur í algjörri andstöðu við það. Markmið með refsingu fyrir glæpi er að tryggja öllum á sama hátt eins mikið frelsi og mögulegt er – í samræmi við jafnan rétt annarra – til að leita eigin hamingju undir leiðsögn eigin dómgreindar og með nýtingu eigin eigna. Markmiðið með refsingu fyrir lesti er hins vegar að svipta alla menn meðfæddum rétti og frelsi til þess að leita eftir hamingju að eigin hyggjuviti og með nýtingu eigin eigna. Þessi tvö markmið eru því algjörar andstæður. |
Í riti sínu um glæpi og lesti færir Spooner eindregin rök að því að ríkið eigi að láta fólk í friði með sína lesti. Allir menn hafi lesti, en engin leið sé að greina í eitt skipti fyrir öll hvaða lestir séu verstir. Það fari ekki síst eftir einstaklingnum sjálfum hvaða áhrif þeir hafi á hann, hvar menn eru staddir í lífinu. Ef ríkið ætli sér að gera alla lesti refsiverða þá verða fangelsin full en enginn eftir fyrir utan til að smella í lás.
Kver Spooners fæst í Bóksölu Andríkis og kostar aðeins krónur 1.700 komið inn um póstlúgu hins væntanlega lesanda.