Föstudagur 22. febrúar 2008

53. tbl. 12. árg.

Á dögunum tókst dönsku lögreglunni að koma í veg fyrir að nokkrum íslamistum þar í landi tækist að vega einn þeirra manna sem teiknaði frægar myndir af Múhameði spámanni til birtingar í Jótlandspóstinum. Allt frá því að myndirnar birtust hafa íslamistar haft í hótunum við Dani og líf teiknaranna er í stöðugri hættu. Ótal vestrænar ritstjórnir hafa verið í mikilli sálarangist vegna teikninganna: eiga önnur blöð að birta þær, og þá nú vegna fréttagildis þeirra, eða er þá verið að móðga hina friðsömu og umburðarlyndu íslamista sem búa við kúgun skilningslausra Vesturlandabúa?

Teikningamálið hefur þann kost að það hefur opnað ýmis augu sem áður voru vandlega lokuð. Fleiri og fleiri átta sig á þeirri ógn sem uppgangur íslamismans er fyrir hin frjálsu Evrópulönd. En ótalmörg augu eru ennþá lokuð og læst og lítill skilningur greinanlegur á bak við hátíðleg andlitin. Bláeygir Vesturlandabúar eru margir, fólk sem telur að Vesturlönd þurfi sýknt og heilagt að gefa eftir af hefðbundnum vestrænum gildum, vegna „fjölmenningarinnar“. Meira að segja erkibiskupinn af Kantaraborg virðist hafa náð að umla út úr sér einhverri vitleysu um upptöku sharía-laga á Bretlandseyjum og þó biskupinn segi nú að hann hafi verið misskilinn þá segja hugleiðingar sjálfs yfirmanns ensku biskupakirkjunnar meira en margt annað um það undanhald sem Vesturlandabúar eru komnir á í eigin löndum.

Í Bóksölu Andríkis hefur undanfarið verið til sölu bók þar sem á yfirvegaðan hátt er farið yfir þessi mál og fjallað um þann vanda sem Vesturlönd standa frammi fyrir og einnig vikið að þeirri áráttu margra Vesturlandabúa að ýta óafvitandi undir ógnina. Bókin Íslamistar og naívistar er aðkallandi rit sem fjallar um alvarlegt vandamál sem lítil von er til að sniðgangi Ísland eitt vestrænna ríkja. Höfundarnir eru dönsk hjón, hún er nú félagsmálaráðherra Danmerkur og hann einn kunnasti blaðamaður landsins en var áður hægri hönd Paul Nyrups Rasmussens, forsætisráðherra Jafnaðarmannaflokksins danska.

Íslamistar og naívistar fæst í Bóksölu Andríkis og kostar þar 1.990 krónur heimsend. Þetta er bók sem tilvalið er að hlýja sér við á köldum íslenskum vetrarkvöldum á meðan kveikt er í húsum í Kaupmannahöfn og danskir naívistar heimta rannsókn á því hvort brennuvargarnir séu handteknir „á auðmýkjandi hátt“.