Þriðjudagur 19. júní 2007

170. tbl. 11. árg.

E

Í von um auknar vinsældir fylgir Vefþjóðviljinn  fordæmi annarra fjölmiðla og birtir ansi hreint djarfa mynd af nektardansi í Melbourne. Ef dansarinn væri ekki í Ástralíu sæist sennilega allt. Ástralskir fjölmiðlar birtu myndina á síðasta ári þegar fjölmiðlakönnun stóð yfir þar í landi.

r einhver sérstök könnun á notkun fjölmiðla í gangi um þessar mundir? Flestir þeirra eru í löggu-og-bófa dag eftir dag. Að ógleymdum siðferðismálunum; stripli, vændi, dópi og póker.

Í gær máttu starfsmenn á nektardansstað þola að þeir væru myndaðir í bak og fyrir við störf án þess að hafa hugmynd um það og myndirnar svo sýndar á Stöð 2. Fjölmiðlamenn hafa jafnan mikinn áhuga á réttindum og starfsaðstæðum nektardansara en þegar það hentar fjölmiðlamönnunum sjálfum að nýta dansarana til eigin ábata þá fara öll réttindi og mannasiðir lönd og leið. Hvorir eru nú ærlegri, mennirnir sem kaupa einkadans og greiða fyrir hann umsamið verð eða þeir sem laumast til að mynda dansarana til að fjölga þeim sem glápa á þáttinn sinn?

Eins og lesendum Vefþjóðviljans er kunnugt þá vill svo vel til að Andríki gaf á dögunum út lítið rit eftir Lysander Spooner sem er helgað þeirri spurningu hvort refsa eigi mönnum fyrir ýmsa lesti. Í hugum flestra eru hvorki nektardans né kaup á einkadansi beinlínis glæpsamlegt athæfi heldur frekar löstur eða ódyggðug hegðun. Enda blasir það við að í flestum tilvikum eru slík viðskipti nauðungarlaus eins og önnur viðskipti mannanna. Spooner svarar því afdráttarlaust í riti sínu Löstur er ekki glæpur hvort ríki geti beitt menn refsingum eða skipt sér á annan hátt af löstum þeirra.

Það er algjörlega ómögulegt að ríki geti haft rétt til þess að refsa mönnum fyrir lesti þeirra. Það er vegna þess að það er ómögulegt fyrir ríki að búa yfir nokkrum rétti utan þeirra sem einstaklingarnir sem mynda það hafa áður haft sem einstaklingar. Þeir geta ekki falið ríkinu í hendur neinn rétt sem þeir búa ekki sjálfir yfir. Þeir geta ekki lagt ríkinu til neinn rétt nema sem þeir bjuggu sjálfir yfir sem einstaklingar. Nú myndi enginn nema bjáni eða svikahrappur þykjast geta, sem einstaklingur, refsað öðrum mönnum fyrir lesti þeirra. Hins vegar hefur hver og einn meðfæddan rétt, sem einstaklingur, til þess að refsa öðrum mönnum fyrir glæpi þeirra. Það er vegna þess að allir hafa meðfæddan rétt, ekki aðeins til þess að verja sig sjálfan og eignir sínar, heldur einnig til að veita öllum öðrum aðstoð og vernd sem verða fyrir árás á sig eða eignir sínar. Meðfæddur réttur hvers einstaklings til þess að verja sig og eignir sínar gegn árásarmanni, og til þess að þiggja aðstoð og varnir frá öllum öðrum sem verða fyrir árás á sig eða eignir sínar, er réttur sem mannkynið gæti ekki þrifist án. Ríki hefur ekki tilvistarrétt nema að því leyti sem það felur í sér, og er takmarkað af, meðfæddum rétti einstaklinga.

Enginn maður á rétt á að vera mamma annars fullorðins manns og flengja hann eða setja í skammarkrókinn þegar honum þykir barnið ekki dyggðugt. Og þar með getur ríkið ekki tekið sér þann rétt.

En hvað með milligöngumennina, feitu karlana sem fitna enn meir á því að tæla bæði dansara og áhorfendur inn á búllur sínar? Eru þeir ekki glæpamenn upp til hópa? Spooner er snöggur til svars.

Því er einnig haldið fram að það sé glæpur að tæla annan mann til lasta.
Þetta er fáránlegt. Ef nokkurt verk er aðeins löstur þá er sá sem lokkar annan til þess að fremja það aðeins samsekur í lestinum. Hann fremur augljóslega engan glæp þar sem sá sem er samsekur getur ekki framið stærra afbrot en brotamaðurinn sjálfur.
Hver andlega heilbrigður einstaklingur sem býr yfir sæmilegri skynsemi og sjálfstjórn er talinn andlega hæfur til þess að meta sjálfur öll með- og mótrök sem notuð eru til þess að sannfæra hann um að framkvæma ákveðið verk. Það er að því gefnu að svikum sé ekki beitt til að blekkja hann. Verk sem hann er sannfærður um, eða hvattur til, að framkvæma er hans eigið. Jafnvel þótt sannað sé að verkið sé honum skaðlegt þá getur hann ekki kvartað yfir því að fortölurnar eða rökin sem hann lét undan hafi verið glæpir gegn honum.

Löstur er ekki glæpur fæst í Bóksölu Andríkis.