Mánudagur 18. júní 2007

169. tbl. 11. árg.

Það er gríðarlega mikilvægt fyrir íslenska skattgreiðendur að sem allra flestar listaspírur fari á þeirra vegum á Feneyjatvíæringinn. Því miður liggja ekki enn fyrir nákvæmar upplýsingar um það hversu margir hafa farið þetta árið, en það hlýtur samt að verða sagt frá því fyrr eða síðar.

En það er ekki aðeins mikilvægt að sem allra flestir fari til Feneyja og skoði innsetningu í rými, og annan rjóma íslenskrar myndlistar. Það er líka afar „mikilvægt“, eins og Morgunblaðið sló réttilega upp í fyrirsögn á miðopnugrein á laugardaginn, að „byggja varanlegan sýningarskála fyrir Ísland á aðalsýningarsvæðinu sem fyrst“. Í samtali við blaðið sagði menntamálaráðherra að væntanleg bygging skálans verði „risaverkefni“ og í því ljósi vill Vefþjóðviljinn taka undir hófstillta fullyrðingu Morgunblaðsins og bæta því við frá eigin brjósti að bygging þessa skála í Feneyjum þoli enga bið.

Ríkissjónvarpið sendi vitaskuld vaska sveit til að fylgjast með sigurgöngu íslensku myndlistarinnar á tvíæringnum og ef marka má myndir að sunnan þá tókst þarna allt vonum framar. Sérstaklega var ánægjulegt að heyra glæsilega söngkonu syngja íslenskt vorljóð við opnun íslenska skálans. Ekki var síður ánægjuefni að heyra að því er virtist hvern einasta viðstaddan mann taka undir sönginn á íslensku. Svo vel hefur kynningin á sögu og menningu Íslands tekist þarna. Eða það er bara vísbending um að skálinn hafi verið þéttsetinn íslenskum listunnendum sem þarna hafa vitanlega allir verið komnir á eigin kostnað.

Feneyjatvíæringuinn er geysilega mikilvæg samkoma sem íslenskir skattgreiðendur hljóta að setja í algeran forgang á næstu árum.