Mánudagur 11. júní 2007

162. tbl. 11. árg.

Út er nú komið sumarhefti tímaritsins Þjóðmála, þess ómissandi tímarits. Eins og löngum áður er heftið fullt af áhugaverðu efni um ýmis ólík svið íslenskra þjóðmála og menningar. Ein megingrein heftisins er eftir Eið Guðnason, sendiherra, og er þar afar fróðleg og skemmtileg grein á ferð. Á fertugsafmæli Ríkissjónvarpsins, síðastliðið haust, hafði Ólafur Ragnar Grímsson komið fram í sjónvarpsviðtali og látið ýmis stór orð falla um upphaf íslensks sjónvarps, framgöngu þess fyrstu árin og eigin þátt í því að hún hefði breyst. Eiður Guðnason var fréttamaður sjónvarpsins á þessum árum og í hinni ýtarlegu grein sinni andmælir hann sem alröngum, fjölmörgum af kenningum Ólafs Ragnars úr afmælisviðtalinu. Full ástæða er til að vekja athygli á grein Eiðs, ekki eingöngu vegna vitnisburðar hans um Ólaf Ragnar og þátt hans í sögu sjónvarpsins, heldur ekki síður vegna þess hve greinin er aðgengileg, læsileg og fróðleg fyrir alla þá sem ekki vita þeim mun meira um þennan áhugaverða tíma í sögu íslenskra fjölmiðla og þjóðlífs.

Ný ríkisstjórn tók við völdum í síðasta mánuði og Þjóðmál hafa leitað til hóps manna eftir sjónarmiðum um það hvað hin nýja stjórn eigi helst að hafast að. Þau Hannes H. Gissurarson, Heiðrún Lind Marteinsdóttir, Ívar Páll Jónsson, Ragnhildur Kolka og Sigríður Á. Andersen, svara þessari spurningu fyrir sitt leyti og eru tillögur þeirra bæði almennar og sértækar. Ekki verða þær raktar hér, þó það væri óhætt, en sérstaklega má vekja athygli á og taka undir niðurlagsorð Ívars Páls Jónssonar: „Lausnarorðið er frelsi. Ríkisvaldið á að vinna að því að draga úr afskiptum hins opinbera af lífi Íslendinga. Ekki bara vegna þess að það er hagkvæmt, heldur fyrst og fremst vegna þess að það er réttlátt.“

Margt fleira efni er í Þjóðmálum eins og venjulega. Gunnar F. Guðmundsson fjallar um Ágústínum kirkjuföður, en stórvirki hans, Játningar, komu nýlega út í þýðingu Sigurbjörns Einarssonar biskups; Jakob F. Ásgeirsson fer yfir embættisveitingar Björns Bjarnasonar, en um þær hafa ýmis stór og lítt rökstudd orð verið látin falla; Jóhann J. Ólafsson skrifar um eignarréttinn og segir að eignarréttindi séu meðfædd og óbreytanleg mannréttindi; Þjóðmál minnast Péturs Péturssonar þular sem nýlega lést; Atli Harðarson skrifar um efahyggju umburðarlyndi og íhaldssemi – og þannig mætti áfram telja.

Þjóðmál eru ómissandi fyrir alla áhugamenn um íslensk þjóðmál og menningu. Áskrift af þeim fæst í bóksölu Andríkis og kosta þar fjögur hefti aðeins kr. 3.500 og heimsending innifalin. Einnig má í Bóksölunni kaupa stök eldri hefti tímaritsins.