Helgarsprokið 5. ágúst 2007

217. tbl. 11. árg.

Þ að hefur líklega ekki farið framhjá þeim sem eiga brýnt erindi um gamla Vesturbæinn í Reykjavík á tveimur eða fleiri jafnfljótum, að búið er að sverfa af honum hornin. Eða öllu heldur saga af honum hornin. Að undanförnu hefur verið unnið að því hörðum höndum með steinsög og ámóta tækjabúnaði að saga hornin af gangstéttunum í gamla Vesturbænum og setja ný í staðinn. Ástæðan er ekki sú að gömlu hornin hafi ekki lengur þjónað tilgangi sínum sem horn, nei, ástæðan er allt önnur.

„Reykjavíkurborg er svo mikið í mun að eyða öllu því sem aflað er til að koma í veg fyrir að þurfa að lækka skatta, að í örvæntingu sinni lætur hún skipta um gangstéttarhorn í gamla Vesturbænum fyrir stórfé.“

Gömlu hornin voru söguð af vegna þess einfaldlega að þau voru gömul og koma þurfti fyrir nútímalegri hornum. Gömlu horn gangstéttanna voru í stíl við afganginn af gangstéttunum; gráar og fremur stórar hellur. Gömlu hornin voru að vísu gömul, en það skýrist af því hvar þau voru og þess vegna má segja að þau hafi einmitt farið nokkuð vel hvert á sínum stað.

Nýju hornin eru í stíl við gangstéttar í nýjum hverjum borgarinnar; litlar hellur í tveimur litum, rauðar og gráar. Þessi horn eru algert stílbrot í gamla Vesturbænum þó að þau fari sjálfsagt vel þar sem afgangurinn af gangstéttinni býður upp á slík horn. Þar má líklega segja að þau beri hönnuðum sínum og kaupendum fagurt vitni, en í gamla Vesturbænum bera þau smekkleysunni einni vitni.

Þó er það nú víst svo að ekki verður deilt um smekk og það sem einum þykir smekklaust er annar svo smekklaus að þykja fagurt. Svo laðast líka sumir að smekkleysunni og telja hana fagra í sjálfri sér, eins og sjá má á mörgum framúrstefnulegum tískusýningum fræga og fína fólksins. Og auðvitað er allt gott um þetta að segja og fullyrða má að heimurinn væri talsvert fátækari ef allir væru smekklegir – að allra áliti það er að segja. Svo líklega er smekkleysan nauðsynleg, enda er hún í sjálfu sér ekki ástæða þess að Vefþjóðviljinn vekur nú athygli á nýjum og smekklausum hornum í Vesturbænum.

Ástæða þess að vakin er athygli á hornaskiptingunum er sú, að þær eru ekki aðeins smekklausar heldur einnig afar dýrar. Og það er ekki eins og gangstéttarnar séu í einkaeigu og eigendurnir hafi tekið sig til og ákveðið að verja eigin fjármunum í að fjöldaframleiða ljót gangstéttarhorn í Vesturbænum. Gangstéttarnar eru í eigu Reykjavíkurborgar og það er Reykjavíkurborg sem ákvað að láta skattgreiðendur, bæði í Vestubænum og annars staðar í borginni, greiða fyrir hornaskurðinn.

Vefþjóðviljinn hefur hvorki talið nýju hornin né reiknað út hvað eitt nútímalegt horn kostar. Hins vegar þarf ekki mikla innsýn í framkvæmdir af þessu tagi til að sjá að kostnaðurinn hleypur líklega frekar á milljónatugum en milljónum króna.

Eru nýju hornin í gamla Vesturbænum tilraun til að afsanna þá kenningu að ekki verði deilt um smekk? 

Reykjavíkurborg er eins og aðrir opinberir aðilar – sérstaklega sveitarstjórnir – í því að hún kemur ekki auga á nokkurn útgjaldalið sem má missa sín. Hvergi má spara svo mikið sem túskilding og lækka í staðinn álögur á borgarana. Reykjavíkurborg er svo mikið í mun að eyða öllu því sem aflað er til að koma í veg fyrir að þurfa að lækka skatta, að í örvæntingu sinni lætur hún skipta um gangstéttarhorn í gamla Vesturbænum fyrir stórfé.

Vitaskuld geta opinberir aðilar – sérstaklega sveitarfélög – sparað mikið fé. Það má víða finna matarholu hafi menn á því áhuga. Vandamálið er hins vegar að flestir sveitarstjórnarmenn hafa augsýnilega engan áhuga á að spara fé. Vefþjóðviljinn sýndi í gær fram á hversu gríðarlega tekjur sveitarfélaga hafa hækkað á síðustu árum en samt heimta sveitarstjórnarmenn meira. Dettur einhverjum í hug að hornin í Vesturbænum séu einu óþörfu útgjöldin hjá Reykjavíkurborg þetta árið? Er einhver þeirrar skoðunar að hvergi megi finna nokkrar milljónir króna til að spara? Nei, auðvitað getur enginn verið þeirrar skoðunar, allra síst þeir sem lifa og hrærast í hinu opinbera kerfi.

Vandinn er hins vegar sá sem áður var nefndur, nefnilega að flestir sveitarstjórnarmenn hafa engan áhuga á að spara. Þeir vilja eyða öllu sem aflað er og svo vilja þeir auka tekjurnar til að geta haldið áfram að eyða. Sú hugsun að sparnaður og skattalækkun eiga að vera meðal verkefnanna kemst ekki að. Fyrir kosningar láta menn ef til vill góð orð falla um aðhald í rekstri, en þegar á hólminn er komið sést að annaðhvort var lítill vilji eða lítil geta á bak við þau orð. Menn falla í sama farið og forverarnir, reyna að kaupa sér atkvæði á kostnað skattgreiðenda. Það virðist því miður vera svo með flesta sem sækjast eftir sætum kjörinna fulltrúa, að það eru sætin sjálf sem heilla. Ekki þau verk sem sætin gera mönnum kleift að vinna.