S jávarútvegur er atvinnugrein. Nú kann einhverjum að þykja sérkennilegt að setja fram þessa fullyrðingu, enda séu allir á einu máli um að sjávarútvegur sé atvinnugrein. Svo er hins vegar ekki ef marka má umræður síðustu daga og ákvörðun í gær um aukin opinber fjárframlög til valinna byggðalaga.
Þó að fallegt sé í dreifðum byggðum landsins mun byggðaþróun halda áfram. „Mótvægisaðgerðir“ gera lítið annað en draga vandann á langinn og gefa fólki falskar vonir um framtíðina. |
Það hefur lengi – í margar aldir – verið augljóst að byggðaþróun stefndi í ákveðna átt. Reynslan hefur sýnt að flest fólk vill vera þar sem fólk er fyrir og þannig hefur því tekist að bæta hag sinn mest. Fólk hefur flutt úr dreifbýli í þéttbýli, meðal annars til að vera síður háð duttlungum náttúrunnar. Náttúran er nefnilega, ólíkt sem sem ætla mætti af umræðum um hana, ekki sérstaklega upptekin af því að gæta hagsmuna mannsins. Náttúran er algerlega tillitslaus, auk þess að vera sveiflukennd, öfgafull og ótrygg. Þess vegna hafa menn reynt að vera sem minnst háðir henni.
Sjávarútvegur er atvinnugrein sem er nær algerlega háð náttúrunni. Þess vegna er óhjákvæmilegt að í atvinnugreininni séu miklar sveiflur og við það hefur fólk búið alla tíð. Með skynsamlegu stjórnkerfi fiskveiða, kvótakerfinu svokallaða, meðal annars vegna framsals aflaheimilda, hefur tekist að draga úr neikvæðum áhrifum náttúrulegra sveiflna. Hins vegar losnar sjávarútvegurinn vitanlega aldrei undan sveiflunum. Atvinnugreinar og fyrirtæki laga sig að sveiflum í rekstrarumhverfinu og fyrirtækjum sem tekst vel að laga sig að sveiflunum lifa af en hin heltast úr lestinni. Það er hinn eðlilegi gangur í atvinnulífinu og þannig verður til öflugt atvinnulíf með vel reknum fyrirtækjum.
Ef sjávarútvegurinn á að halda áfram að vera atvinnugrein í stað þess að verða félagsleg atvinnubótastarfsemi eins og hann er víða, þá verður bæði að leyfa sjávarútveginum og byggðunum þar sem hann er stundaður, að þróast með eðlilegum hætti. Fyrirtæki verða að fá að vaxa og dafna en þau verða líka að fá að hætta starfsemi ef grundvöllur er ekki lengur fyrir rekstrinum. Sömu sögu er að segja um byggðarlög, þau verða að fá að blómstra en þau verða líka að fá að breytast eða jafnvel leggjast af ef grundvöllur tilvistar þeirra er ekki lengur fyrir hendi. Það gengur ekki í hvert sinn sem niðursveifla verður í veiðum á tilteknum fiskistofni, að þá grípi ríkið inn í og tilkynni um „mótvægisaðgerðir“ til að vinna gegn eðlilegri þróun. Ákvörðun um að hætta við vegagerð þar sem margt fólk býr til að geta lagt meira af vegum þar sem fáir búa er til að mynda augljóslega verulega vafasöm. Og að taka fé af fólki í tilteknum byggðarlögum til að afhenda fólki í öðrum er í meira lagi hæpin aðgerð. Til langs tíma er engum greiði gerður með þess háttar framgöngu, hvorki þeim sem gerðir eru að beiningarmönnum né hinum sem skikkaðir eru til að láta fé af hendi rakna.