Mánudagur 16. apríl 2007

106. tbl. 11. árg.

Þ að, að mega gera samning um eigin mál við aðra menn, sem fúsir eru til slíks samnings, er í stystu máli það sem felst í hugtakinu almennt samningafrelsi. Að mega semja um ráðstöfun eigna sinna og annarra réttinda og að mega sjálfir ráða efni samningsins. Í því, að mega ráða efni samningsins, felst að sjálfsögðu einnig það, að mega, ef báðir vilja, semja um að efni samningsins sé einkamál þeirra sem ekki komi öðrum við.

Ekki er óalgengt, að þeir sem gera vinnusamninga, semji jafnframt um það að einstök ákvæði samningsins skuli vera þeirra einkamál. Það getur verið ákaflega eðlilegt samningsákvæði. Skiljanlega geta einstök ákvæði vinnusamnings ráðist mjög af persónulegum eiginleikum hvers starfsmanns. Þó margir starfsmenn kunni að hafa sama starfsheiti, sambærilega menntun og reynslu, þá eru þeir í raun ólíkar persónur með ólíka eiginleika. Menn eru misfljótir að setja sig inn í mál, vinna misvel undir álagi, eru misfúsir að taka á sig verkefni og ábyrgð, eru misfljótir að ná valdi á nýjungum, hafa misgóð áhrif á samstarfsmenn sína og svo framvegis og svo framvegis. Þó mælanleg atriði eins og menntun, starfsreynsla og margt fleira geti verið lík, þá eru engir tveir „jafn hæfir“ starfsmenn til. Þess vegna er ekki óeðlilegt að starfsmönnum geti gengið misvel að semja um kaup og kjör við yfirmenn sína.

Maður – eða fyrirtæki – sem þarf að gera samninga við ótal starfsmenn, samninga sem þó eru hver og einn meðal annars byggðir á ólíkum eiginleikum hvers starfsmanns, vill hafa svigrúm til að gera mismunandi samninga við mismundandi starfsmenn. Í slíkum tilvikum getur verið afar skiljanlegt að samið sé um það að atriði eins og launakjör séu einkamál semjendanna. Það hefði einfaldlega óþolandi áhrif á vinnustað ef ákveðið yrði að atvinnurekandi skyldi gera opinbera dóma um persónulega eiginleika allra starfsmanna sinna. Jú kæru starfsmenn, þeir Gísli, Eiríkur og Helgi í greiningardeildinni eru allir með átta doktorsgráður í mannauðsstjórnun, en Eiríkur er alltaf tuðandi og Gísli skilur ekki fyrirmæli fyrr en í þriðju tilraun og þá varla. Helgi hefur hins vegar tvívegis fengið boð um vinnu annars staðar og þess vegna ákváðum við að bjóða honum fjörutíuþúsund króna hækkun núna í febrúar. Jæja, nú vitið þið þetta, skemmtið ykkur vel í kaffinu og munið að þið eigið rétt á rökstuðningi í þríriti, samanber vinnureglur kærunefndar launamála, stefnuræðu félagsmálaráðherra og árskýrslu umboðsmanns alþingis.

Í tilefni landsfundar Sjálfstæðisflokksins var á dögunum haldinn landsfundur Samfylkingarinnar. Þangað kom Bjarni Ármannsson bankastjóri og lagði til að löggjafinn bannaði fólki að semja um að launasamningar þess væru einkamál.

Þess er varla að vænta að Íslandsbanki hafi gert launasamninga sem ekki eru opinberir. Bankinn hefur vitanlega ekkert við það að athuga að þeir verði allir opinberaðir og rökstuddir.