M eira en hálft tíunda ár er nú liðið frá því stjórnmálafélagið Andríki hóf að halda úti ritinu Vefþjóðviljanum. Enginn hafði beðið félagið um að taka upp á þessu, en að vísu hafði enginn heldur beðið um að það yrði látið ógert. Og með því rit þetta kemur út daglega eru þau nú orðin vel á fjórðaþúsund, tölublöðin sem úthaldsbestu lesendurnir hafa fengið. Allt frá fyrstu stundu hefur ritið átt því að fagna að lesendur þess hafa margir látið það heyra frá sér. Ýmsir þeirra hafa skilmerkilega tekið fram að útgáfa sem þessi sé hið mesta óþarfaverk og hafa slíkum skilaboðum stundum fylgt ómisskiljanlegar upplýsingar um það hvar aðstandendur útgáfunnar væru best geymdir. Þó slíkar athugasemdir hafi jafnan fallið í góðan og þakklátan jarðveg þá hefur hitt þó verið enn meira þakkarefni hversu ótalmargir hafa mælt af vinsemd til útgefandans og ófáir raunar látið í ljós þá ósk að einhvern tíma verði gerðar ráðstafanir til þess að sjónarmið útgefandans fái aukið vægi í þjóðmálaumræðunni.
Um þessar mundir hefja stjórnmálaflokkarnir kosningaundirbúning sinn; flestir með því að velja sér frambjóðendur á lista. Í framboði í prófkjör Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík er Sigríður Andersen, lögfræðingur. Hún hefur með öðrum störfum og veigameiri verið hér í ritstjórn öll þau bráðum tíu ár sem ritið hefur komið út og er einn stofnenda og stjórnarmanna Andríkis frá upphafi. Þó ritstjórnin hafi á þessum árum haldið nöfnum sínum, andlitum eða öðrum kennileitum lítt á lofti, þykir henni eðlilegt að gera þessu skil. Er það gert til upplýsingar þeim sem kynni að þykja óhætt að inn í þingumræður bærust þau meginsjónarmið sem kynnt hafa verið á þessum vettvangi undanfarin ár; óskina um lægri skatta, einfaldara ríkisvald, frjálsara þjóðfélag.
F élagsmálaráðuneytið heldur áfram að skipta sér af því hvernig landsmenn nýta atkvæðisrétt sinn. Í kvöld heldur nefnd á þess vegum, svokölluð „ráðherraskipuð nefnd um aukinn hlut kvenna í stjórnmálum“ baráttufund. Vitaskuld er þeim fundi ætlað að þrýsta á kjósendur í prófkjörum og forvali að velja nú konur og aftur konur í framboð. Það er mjög óeðlilegt að ráðuneyti reyni að hafa áhrif á það hverjir komist til áhrifa á alþingi eða sveitarstjórnum með þessum hætti. Kjósendur mega vitaskuld láta hvaða atriði sem þeim sýnist stjórna vali sínu á frambjóðendum, en það á ekki að nota opinbert fé til þess að hvetja kjósendur til að hafna Jóni en kjósa Jónínu.