Mánudagur 4. september 2006

247. tbl. 10. árg.

Á ráðstefnu RSE um sjávarútvegsmál í síðustu viku var meðal annar tekist á um nýtingu fiskistofna á úthafinu. Eins og menn þekkja þá er það verulegt vandamál að hver sem er geti veitt á hafsvæðum utan efnahagslögsögu ríkja. Þar er í raun opið sóknardagakerfi með óhjákvæmilegri ofveiði og annarri sóun. Sumir fiskistofnanna sem ofnýttir eru á þessum svæðum eru að sjálfsögðu einnig sameiginlegir með fiskistofnum einstakra ríkja.

Tvær leiðir voru einkum nefndar til lausnar þessu vandamáli. Annars vegar að fela alþjóðlegri stofnun, væntanlega á vegum Sameinuðu þjóðanna, að fara með stjórn fiskveiða utan efnahagslögsögu ríkja. Sú tillaga kom frá starfsmanni stofnunar á vegum Sameinuðu þjóðanna sem minnir á að starfsmenn slíkra stofnanna eru alltaf til í að auka völd sín. Hins vegar var lagt til að færa efnahagslögsögu einstakra ríkja út að miðlínu í öllum tilvikum. Það væri fróðlegt að sjá hvaða áhrif það hefði á stærð efnahagslögsögu Íslands. Ef að líkum lætur mundi hún stækka og þá er ekki við öðru að búast en að íslensk stjórnvöld styðji slíka tillögu.

Hugmyndin um að fela alþjóðlegri stofnun að leysa þetta mál hlaut dræmar viðtökur á ráðstefnunni. Menn hafa auðvita vítin til að varast þau. Yfirþjóðlegum báknum á borð við Evrópusambandið hefur alveg mistekist að stjórna fiskveiðum aðildarríkja sinna. Einnig bentu ráðstefnugestir á að Sameinuðu þjóðirnar væru markaðar af spillingu og reynslan af því að láta þær leysa mál væri ekki góð.

Hin leiðin, að færa efnahagslögsögu út að miðlínu, hljómar ekki aðeins einfaldari og raunhæfari heldur gefur hún færi á að ríki, eins og Ísland og Nýja-Sjáland, sem komið hafa skynsamlegri stjórn á fiskveiðar sínar geti fært þá stjórn út til nýrra svæða.