Þ eir sem muna eftir því hvernig var stofnað til laga um fæðingar- og foreldraorlof vorið 2000 hafa sjálfsagt hrokkið við í gær þegar VR kynnti þær niðurstöður launakönnunar sinnar að munur á launum karla og kvenna hefði verið sá sami undanfarin fjögur ár. Ein helsta ástæðan fyrir því að umrædd lög voru sett var sú fullvissa fylgismanna þeirra að þau mundu eyða umræddum launamun kynjanna. Ekkert slíkt hefur gerst. Munurinn er nákvæmlega sá sami samkvæmt þessum mælingum og þegar lögin tóku að fullu gildi.
Ekki ætlar Vefþjóðviljinn að henda gaman að þessari niðurstöðu, til þess er hún of dýru verði keypt. Kostnaðaraukinn vegna laganna átti að verða 1,5 milljarður króna en er nú orðinn nær þrefalt meiri. Þrefalt! Framúrkeyrslan er um 200%, sem þætti jafnvel afrek hjá Orkuveitu Reykjavíkur. Vefþjóðviljinn varaði á sínum tíma eindregið við því að þessi kostnaður myndi fara úr böndunum enda var í byrjun ekkert þak á greiðslum úr fæðingarorlofssjóðnum og dæmi voru um að Tryggingastofnun ríkisins greiddi hátekjumönnum yfir milljón krónur á mánuði. Alþingi viðurkenndi þó mistökin og þak hefur nú verið sett á greiðslurnar en eftir sem áður fá þeir efnamestu hæstu greiðslurnar og þeir tekjulægstu bera minnst úr býtum. Markaði þessi jákvæða tenging bóta við tekjur ákveðin skil í sögu velferðarkerfisins.