Ífréttum Ríkissjónvarpsins í gærkvöldi tjáði Indriði H. Þorláksson ríkisskattstjóri sig um þá tillögu í skýrslu Andríkis að útsvar til sveitarfélaga og tekjuskattur til ríkisins verði sundurliðað á launaseðlum. Andríki telur mikilvægt að skattgreiðendur viti hvert skattar af launum þeirra renna. Það átta sig ekki allir á því hve sveitarfélög fá stóran skerf af staðgreiðslu tekjuskatts einstaklinga.
Ríkisskattstjóri sá þau tormerki á því að gefa launþegum þessar upplýsingar að launþegar gætu verið að vinna á fleiri en einum stað. Þetta gæti því reynst flókið. Fólk yrði ruglað í ríminu ef það fengi þessar upplýsingar sundurliðaðar. Í viðtalinu sagði ríkisskattstjóri:
Það er vafalaust góður ásetningur en ég efast um að hann skili miklu og auk þess sýnist mér það vera óframkvæmanlegt nema með mjög miklum reiknikúnstum þannig að ég held að það sé nú tillaga sem menn ættu að skoða betur áður þeir hugleiði eitthvað slíkt í alvöru. |
Sú mynd sem að einstakur launaseðill gefur af þessu er aldrei rétt og auk þess held ég bara til þess fallin að rugla fólk. |
Það er ekki víst að ríkisskattstjóri átti sig á því hvaða einkunn hann er að gefa skattkerfinu, sem hann hefur stýrt mörg undanfarin ár, þegar hann segir það vera „óframkvæmanlegt nema með miklum reiknikúnstum“ að draga einfaldar upplýsingar út úr kerfinu. Ríki og sveitarfélög skipta staðgreiðslu af tekjuskatti einstaklinga nær jafnt á milli sín. Sveitarfélög taka meira af launum undir 250 þúsundum en ríkið tekur meira af launum yfir 250 þúsundum. Það er ekkert mjög flókið.
Skipting ríkis og sveitarfélaga af staðgreiðslu tekjuskatts einstaklinga. |
Vefþjóðviljanum er ánægja að skýra ríkisskattstjóra frá því að fyrirtæki hafa þegar breytt launaseðlum sínum á þennan hátt. Þegar sú breyting hefur einu sinni verið gerð skiptir engu máli hvort menn eru að vinna á einum eða fleiri stöðum. Staðgreiðslukerfi skatta er því ekki eins snúið og flókið og ríkisskattstjóri heldur. Launagreiðendur þurfa enga uppáskrift ríkisskattstjóra til að gera þessa breytingu.
Það viðhorf ríkisskattstjórans að upplýsingar um hvernig staðgreiðslan skiptist milli ríkis og sveitarfélags „rugli fólk“ lýsir vonandi ekki almennu viðhorfi hans til skattgreiðendanna sem hann er í vinnu fyrir. Það er ekki hlutverk embættisins að fela einfaldar upplýsingar fyrir skattgreiðendum því þeir geti hugsanlega ruglast í ríminu. Á vef ríkisskattstjóra segir um hlutverk embættisins: „Ríkisskattstjóri skal hafa umsjón með því að stöðugt sé leitast við að bæta vinnubrögð og þjónustu skattkerfisins með stöðugri endurskoðun og endurbótum á verklagi þess og upplýsingamiðlun.“ Það er andstöðu við þetta hlutverk embættisins að ríkisskattstjóri reyni að bregða fæti fyrir eðlilega upplýsingagjöf til skattgreiðenda.
Hitt er síðan annað mál eins og bent var á í skýrslu Andríkis að vissulega gætu ríki og sveitarfélög einfaldað skiptingu tekjuskattsins þótt það sé engin forsenda þess að hægt sé að sýna hana á launaseðli. Þetta kom skýrt fram í skýrslu Andríkis.
Flatur tekjuskattur án persónuafsláttar væri einfaldasta leiðin að því marki.