Mánudagur 27. júní 2005

178. tbl. 9. árg.

Ádögunum stækkaði „Fríhöfnin“ verslun sína í flugstöð Leifs Eiríkssonar í Keflavík verulega. Að því tilefni var rætt við framkvæmdastjóra verslunarinnar í sjónvarpsfréttum. Hann lýsti því vel og vandlega hvernig þjónusta og vöruúrval verslunarinnar batnaði við þessa stækkun og klykkti svo glaðbeittur út með því að verðið væri „hvergi hagstæðara“.

Þetta væri allt gott og blessað ef þannig háttaði ekki til að það er ríkið sem rekur þessa verslun. Hún á að sjálfsögðu í keppni við verslanir sem einstaklingar reka hérlendis. Ástæðan fyrir því að verðið er hvergi hagstæðara er ekki óvænt snilli hins opinbera við kaupmennsku heldur sú staðreynd að þessi verslun er undanþegin þeim sköttum og gjöldum sem aðrar verslanir á Íslandi þurfa að leggja á sínar vörur. Fríhöfnin þarf ekki að innheimta virðisaukaskatt, tolla eða vörugjöld af seldum vörum eins og aðrar verslanir í landinu. Til að velta kaupmönnum upp úr þessu rekur Fríhöfnin vefinn dutyfree.is þar sem kostakjörin, skattlaus og fín, eru tíunduð. Þar má meðal annars sjá tilboð mánaðarins og þau borin saman við verðið „innanlands“. Eitt af tilboðunum í júnímánuði er Naomi Paradise dömuilmvatn á 2.290 krónur en verðið innanlands er sagt vera 3.589 krónur.

Samlokugrill, sem boðið er til sölu spölkorn frá flugstöðinni í verslun niðri í Sandgerði, ber 7,5% toll, 20% vörugjald og ofan á verðið með álagningu leggst svo 24,5% virðisaukaskattur. Í Fríhöfninni er hins vegar ekkert af þessum opinberu gjöldum innheimt. Ef álagning er 50% í bæði versluninni í Sandgerði og Fríhöfninni má gera ráð fyrir að með öllum þessum áleggstegundum af sköttum sé grillun á samlokunni nær 60% dýrari í grilli frá Sandgerði en örlitlu sunnar á Rosmhvalanesi.

Á þessu fyrirkomulagi er svo önnur hlið en sú sem snýr að kaupmönnum. Með þessu fríhafnarfyrirkomulagi er verið að búa til óþarfan mun á milli þeirra sem ferðar mikið og hinna sem þurfa að sitja heima. Þeir sem ferðast mikið geta til að mynda keypt Camus Grand VSOP koníak á 2.890 á tilboði í Fríhöfninni en þeir sem hafa ekki tækifæri til að ferðast – meðal annars vegna hárra skatta innanlands – geta fengið sömu lítraflösku á 6.700 krónur. Vafalaust myndi þessi munur á þeim sem ferðast til útlanda og hinna ekki hverfa þótt íslenska ríkið hætti þessum rekstri því ferðalangar geta fundið hagstæð verð víða um heiminn. En íslenska ríkið væri þó hætt að taka þátt í því að mismuna kaupmönnum og neytendum.