David Schoenbrod hefur marga fjöruna sopið, eiginlega í bókstaflegri merkingu því hann hefur verið virkur þátttakandi í umhverfisverndarmálum í nær fjóra áratugi. Schoenbrod er nú prófessor í lögum við New York Law School. Nú í vor gaf hann út bókina Saving Our Environment From Washington – How congress grabs power, shirks responsibility, and shorchanges the people. Í bókinni segir hann frá afleiðingum þess að Umhverfisverndarstofnun Bandaríkjanna (EPA) var falið að setja reglur um mengunarvarnir. Þingið taldi nauðsynlegt að framselja vald sitt í þessum efnum til stofnunar sem sætti ekki ábyrgð gagnvart kjósendum. Þannig mætti tryggja að óháðir sérfræðingar settu reglur um umhverfismál sem væru byggðar á traustum vísindalegum grunni. Í stuttu máli telur Schoenbrod að þetta framsal hafi verið mistök. Hann færir rök fyrir þeirri skoðun sinni í bókinni.
Upphaf afskipta sinna af umhverfismálum rekur Schoenbrod til Isla de Mona eða Mónueyjar í Karíbahafi. Eyjan tilheyrir Púertó Ríkó og þar gilda bandarískar umhverfisverndarreglur. Árið 1975 var hann lögfræðingur hjá Natural Resources Defense Council, félagi sem berst fyrir bættu umhverfi, meðal annars með lögsóknum. Hann var beðinn að koma til Púertó Ríkó, nánar tiltekið Mónueyjar, til að aðstoða við málarekstur gegn því að eyjunni yrði breytt í olíuiðnaðarsvæði. Eyjan var þá tiltölulega ósnortin af mannanna verkum. Ein af ástæðum þess að mönnum datt í hug að setja olíuiðnað niður á eyjunni telur Schoenbrod vera of strangar reglur.
Móna var alls ekki heppilegasti staðurinn á austurströndinni fyrir verkefni af þessu tagi. Nýjar og hertar umhverfisreglur um olíubirgða- og hreinsunarstöðvar höfðu hins vegar gert það ómögulegt að reisa slíkar stöðvar í nágrenni við mannbyggðir. Móna hafði þann kost að vera ekki í bakgarði nokkurs manns. Engu að síður hafði hún sömu stöðu gagnvart umbjóðendum okkar á Púertó Ríkó og Miklagljúfur hefur í Bandaríkjunum og „Superpuerto“ eins og verkefni var kallað í fjölmiðlum á Púertó Ríko hljómaði eins nýlendustefna í nútímabúningi. |
Bandarískar umhverfisverndarreglur gilda á Púertó Ríkó en það var von þeirra sem stóðu að verkefninu að heimamenn hefðu ekki burði til að hefja málarekstur gegn verkefninu, að minnsta kosti ekki fyrr en verkefnið væri komið vel á veg og of seint að hreyfa mótbárum. |
Þetta er áhugaverð hugleiðing. Reglur, jafnt um umhverfismál sem önnur mál, hafa yfirleitt önnur og meiri áhrif en þeim er ætlað. Í þessu tilviki virðist sem strangar reglur um staðsetningu iðnaðar hafi orðið til þess að menn hrökkluðust með starfsemina út í óbyggðir því ekki var lengur mögulegt að stunda hana annars staðar.
Stærstur hluti bókar Schoenbrods fer þó í gagnrýni á völd og starfsaðferðir EPA. Hann telur í fyrsta lagi að stofnunin hafi alltof mikið um staðbundin mál að segja. Hann segir einstök ríki og stjórnvöld á hverjum stað ættu frekar að setja reglur um mengunarvarnir. Þetta gildir fyrir nær allar tegundir mengunar. Í öðru lagi ættu kjörnir fulltrúar að setja reglurnar en ekki stofnanir sem kjósendur ná ekki til.
Umræða um umhverfismál snýst oft um hvað einstök stórfyrirtæki eru að gera. Ýmsir sem kenna sig við umhverfisvernd telja að með auknum reglum og opinberu eftirliti megi koma böndum á stórfyrirtæki. Schoenbrod bendir hins vegar á gagnstæð áhrif sem EPA hefur haft á stöðu stórfyrirtækja.
EPA verndar stórfyrirtæki frá samkeppni frá litlum og upprennandi fyrirtækjum. Regluverkið er vissulega dýrt fyrir stórfyrirtækin en í flestum tilfellum velta þau kostnaðinum yfir á neytendur. Öflug EPA er hagstæð fyrir stórfyrirtæki og reglugerðarmenn alríkisins en slæm fyrir smáfyrirtæki og sveigjanleika heima í héraði. |
Helsta dæmið sem Schoenbrod rekur máli sínu gegn EPA til sönnunar er afstaða stofnunarinnar til reglna um blýinnihald í bensíni. Hann telur að stofnunin hafi dregið lappirnar í því máli og gert það að verkum að blýi var bætt í bensín mun lengur en ef reglusetningarvaldið hefði verið hjá stjórnmálamönnum sem þurfa að standa frammi fyrir kjósendum í kosningum. Þegar stofnuninni var falið það vald að setja reglur um blýinnihaldið var það um leið tekið af einstökum ríkjum Bandaríkjanna og öðrum staðbundnum yfirvöldum.
Sem kunnugt er hafa loftgæði almennt batnað í stórborgum á Vesturlöndum undanfarna áratugi. Þetta rekja menn meðal annars til laga og reglna sem sett voru á áttunda áratugnum eftir að umhverfisverndarvakning varð meðal Vesturlandabúa. Lög sem kennd eru við hreint andrúmsloft (Clean Air Act) frá 1970 eru ekki síst nefnd í þessu sambandi. Schoenbrod telur að þetta segi ekki alla söguna.
Gögn um þróun loftgæða á 20. öldinni eru athyglisverð. Það eru ekki til samfelld og einsleit gögn sem spanna alla öldina en Indur Goklany, fyrrverandi verkfræðingum hjá EPA, hefur púslað saman ýmsum mæligögnum í samfellda vísitölu yfir þær mengunarvarnir sem verksmiðjur beittu til að stýra útblæstri brennisteinsoxíða og ryks. Hvað þessa þætti varðar telur hann að töluverðar framfarir hafi átt sér stað á áratugunum fyrir 1970. |
Fleiri forvitnileg sjónarmið og reynslusögur eru í bók Schoenbrods sem Vefþjóðviljinn mun gera betri skil síðar.