„Það er sama ásóknin í þessi embætti á kostnað skattborgaranna hvort sem er sendiherrastörf eða önnur störf.“ |
– Ágúst Einarsson fyrrverandi þingmaður Þjóðvaka í fréttum Stöðvar 2 9. september 2005. |
Ágúst Einarsson prófessor hefur farið mikinn undanfarna daga vegna ráðningar Davíðs Oddssonar í embætti seðlabankastjóra. Ágúst féll af þingi árið 1999 þegar Davíð vann sinn stærsta kosningasigur sem formaður Sjálfstæðisflokksins. Þá hafði Ágúst setið fjögur ár á þingi fyrir Þjóðvaka, Þingflokk jafnaðarmanna og Samfylkinguna en áður hafði Ágúst einkum unnið sér til frægðar að eiga Íslandsmet fræðinga í úrsögnum og inngöngum í Alþýðuflokkinn. Þessi fjögur sem Ágúst sat á þingi lét hann Háskóla Íslands „geyma“ fyrir sig stöðu prófessors í viðskiptafræðum, sem hann gat svo gengið að þegar þingmannsferlinum lyki. Ágúst þekkir því vel hve ásóknin í störf á kostnað skattborgarana er þrálát.
Þegar Ágúst sat á þingi flutti hann raunar frumvarp er varðar stjórn fyrirtækja. Frumvarpið gerði ráð fyrir að eigendur fyrirtækja með fleiri en 34 starfsmenn yrðu skikkaðir til að veita fulltrúa starfsmanna sæti í stjórn fyrirtækisins. Á sama tíma sat Ágúst, sem hluthafi, í stjórn sjávarútvegsfyrirtækis og kom ekki til hugar að bjóða starfsmönnum þess sæti sitt þótt hann teldi það svo mikilvægt að hann vildi skylda fyrirtæki til þess með lagaboði. Hann kaus frekar sjálfan sig í stjórnina en að veita starfsmönnum brautargengi.
ÁÁrni Magnússon hefur nú boðað að hálfur þriðji milljarður króna verði greiddur til þeirra sveitarfélaga sem fallast á að samþykkja sameiningu við önnur, í þeim kosningum sem félagsmálaráðuneytið stendur fyrir um þetta baráttumál embættismanna þess. Í sjónvarpsfréttum í gær sagði Árni að peningarnir yrðu veittir til þess að styrkja stöðu þeirra sem ákveddu að sameinast. En bíðum nú aðeins við. Er ekki alltaf verið að segja fólki að það sé svo óskaplegt hagræði af því að sameinast? Af hverju þarf að styrkja einmitt sameiningarmenn um þúsundir milljóna? Væri ekki nær að styrkja hina, svona ef það er svo óhagkvæmt að halda sjálfstæði sínu? Eða ætli það geti kannski verið, að þeir í félagsmálaráðuneytinu viti að sameiningar hafa hreint ekki reynst eins hagkvæmar og látið hefur verið, og það eins þó að útsvarsprósentan hafi að jafnaði hækkað þar umfram það sem hefur verið þar sem menn hafa haft vit á að hafna sameiningu?
Og ætli það geti verið að nú eigi að nota stórfellt opinbert fé til þess að reyna að lokka menn til þess að samþykkja sameiningu og þá í leiðinni hlífa Árna Magnússyni við því að standa yfir felldum tillögum í öllum landshornum? Og Árni talaði í gær um það að það yrði sko fólkið sem réði, en ekki embættismennirnir. Einmitt. Það er einmitt þess vegna sem það er kosið aftur þegar menn fella. Það er þess vegna sem sameiningar eru þvingaðar í gegn, og það við gjörbreyttar aðstæður, og þegar nær allir kosningabærir íbúar í nýniðurlögðum Svarfaðardalshreppi vildu fá hreppinn sinn aftur, þá sagði Árni Magnússon einfaldlega að sú ósk gengi ekki því hún væri ekki „í takti“ við vilja ráðuneytisins.
En það er fólkið sem ræður.
Sameiningarákafi ráðuneytanna er vafalítið yfirleitt hugarfóstur embættismanna, sem sannfæra ráðherra sína um að þar sé hagræðing, framtíðin og eflaust fleiri tískuhugtök. En sennilega verður ávinningurinn enginn nema einfaldara bókhald hjá embættismanninum og færri símtöl út á land fyrir hann. Enginn ráðherra hefur sagt orð um sameiningu áður en hann verður ráðherra. Eftir nokkrar vikur í ráðuneytinu er hann búinn að stofna sameiningarnefnd og átakshóp.