Helgarsprokið 10. apríl 2005

100. tbl. 9. árg.

Vefþjóðviljinn botnar ekkert frekar í því nú en í „fjölmiðlamálinu“ í fyrra að þingmenn Sjálfstæðisflokksins séu svo uppteknir af því að setja fjölmiðlum skorður. Nýjar tillögur nefndar menntamálaráðherra gera til dæmis ráð fyrir að eigandi nýs fjölmiðils sem slær í gegn og nær tiltekinni markaðshlutdeild verði að selja ¾ fyrirtækisins af því að neytendum líkaði starfsemi þess of vel! Ef marka má viðtal við formann nefndarinnar í fréttum í gær hefur nefndin einnig áhyggjur af því að fjölmiðlar sem fyrir eru á markaði svari nýrri samkeppni með því að bjóða upp á svipað efni og vinsælir nýir miðlar gera. Þeir sem fyrir eru eiga því að tilkynna einhverju ráði á vegum ríkisins að þeir ætli ekki að sitja með hendur í skauti. Breytingar á dagskrárstefnu ber að tilkynna dagskráreftirliti ríkisins.

„…verður athyglisvert að fylgjast með umræðum um nýja fjölmiðlalöggjöf á næstu mánuðum og án efa verður forvitnilegt að bera ný sjónarmið ýmissa stjórnarandstæðinga, innan þings sem utan, saman við ummæli þeirra á síðasta ári.“

Vefþjóðviljinn verður líka að segja að í umræðunni um fjölmiðlaskýrslunnar saknar blaðið allra þeirra talsmanna óhefts markaðsfrelsis, sem stigu fram á völlinn á síðasta ári. Nú eru allt í einu horfnir allir markaðshyggjumennirnir úr röðum Samfylkingar, Vinstri grænna og Frjálslynda flokksins, sem fyrir ári töluðu sólarhringum saman í þinginu um að lög sem setja atvinnulífinu skorður stangist á við öll helstu grundvallarmannréttindi í vestrænum lýðræðisríkjum, svo sem atvinnufrelsi, eignarrétt og tjáningarfrelsi. Málflutningurinn um þetta efni var svo hástemmdur að engu var líkara en að breytingar á samkeppni- og útvarpslögum fælu í sér endalok samfélags frjálsborinna manna hér í þessu landi. Nú bendir hins vegar umræðan til þess að málið hafi í raun ekki snúist um grundvallaratriði heldur tæknilega útfærslu og að hinir nýfrelsuðu frjálshyggjumenn sem töluðu hvað hæst í þinginu síðastliðið vor hafi í rauninni ekki haft áhyggjur af frjálsum markaði heldur af einhvers konar prósentureikningi. Þetta þarf kannski ekki að koma mikið á óvart, enda voru Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, Kolbrún Halldórsdóttir, Mörður Árnason og Sigurjón Þórðarson aldrei mjög sannfærandi sem talsmenn óbeislaðra markaðslögmála.

Sá snúningur, sem orðið hefur á stefnu vinstri manna á þingi, er auðvitað ekkert einstakur og í sjálfu sér heldur ekkert nýmæli í stjórnmálasögunni. Það sem er hins vegar nýmæli er að snúningurinn skuli eiga sér stað svo skömmu eftir að þessir stjórnmálamenn héldu því fram að löggjöf um eignarhald á fjölmiðlum fæli í sér aðför að grundvallarmannréttindum einstaklinga eða jafnvel að sjálfu „barmmerki lýðræðisins“ eins og Jóhann Ársælsson orðaði það hvað eftir annað í þingræðum. Ólíklegt er að margar slíkar ræður verði haldnar í þinginu á haustdögum þegar nýtt fjölmiðlafrumvarp verður lagt fram og jafnframt er ólíklegt að þjóðarhreyfing þeirra þremenninga, Ólafs Hannibalssonar, Hans Kristjáns Árnasonar og Arnar Bárðar Jónssonar, muni hafa sig mikið í frammi. Óvíst er að forsetinn finni nokkra gjá á milli Bessastaða og Austurvallar á næstunni en hann er sem kunnugt er á förum til Kína innan skamms til að útskýra fyrir þarlendum að takmarkanir á tjáningarfrelsinu séu óhugsandi í framsæknu nútímasamfélagi á morgni 21. aldarinnar. Þá er eiginlega bara eftir vonin um að R-listinn í Reykjavík rísi upp eins og í fyrra og berjist hatrammlega gegn hugmyndum um að setja fyrirtækjum á markaði skorður enda er þekkt að Alfreð, Steinunn Valdís og Björk Vilhelmsdóttir eru bestu bandamenn frjálshyggjunnar í baráttunni gegn höftum á viðskiptalífið í landinu.

Hvað sem þessu líður verður athyglisvert að fylgjast með umræðum um nýja fjölmiðlalöggjöf á næstu mánuðum og án efa verður forvitnilegt að bera ný sjónarmið ýmissa stjórnarandstæðinga, innan þings sem utan, saman við ummæli þeirra á síðasta ári. Kannski kemur í ljós, eins og ýmsa grunaði á þeim tíma, að stóryrðin og stormviðrið sem magnað var upp, snerist í raun ekki um að menn fái að reka fyrirtækin sín án takmarkana af hálfu löggjafans, heldur um þá veiku von stjórnarandstöðunnar og forsetans að hægt yrði að nota þetta mál til að skapa sundrungu innan stjórnarliðsins á Alþingi og koma ríkisstjórninni frá. Nú, þegar ljóst er að sú tilraun tókst ekki, er auðvitað engin fyrirstaða hjá stjórnarandstöðunni að samþykkja reglur sem fela í sér veruleg afskipti af fjölmiðlafyrirtækjum og takmarka með ýmsum hætti starfsemi þeirra.