Laugardagur 9. apríl 2005

99. tbl. 9. árg.

Þá fyrst má hinn almenni maður vara sig þegar „þverpólitísk samstaða“ hefur myndast meðal stjórnmálaflokkanna. „Sátt“ um mál á Alþingi þýðir yfirleitt það eitt að vald færist hratt og örugglega frá borgaranum til ríkisins. Þessi þverpólitísku mál eiga það flest sammerkt að stjórnmálamennirnir segjast vera að „jafna“ hitt og þetta. Þeir eru að jafna tekjurnar sem menn hafa, jafna keppnina milli fyrirtækja, jafna stöðuna milli landsbyggðar og höfuðborgar, milli kynjanna og jafnvel er jafnað á milli heilu heimsálfanna, þróaðra og vanþróaðra. Allar þessar jöfnunaraðgerðir hafa það í för með sér að nýir skattar eru lagðir á, nýjar reglur bætast við og nýjar ríkisstofnanir spretta upp til að sinna jöfnuninni og sjá til þess að fólk fari eftir reglunum.

Öll þessi endurútdeiling gæða er fyrst og síðast færsla á gæðum frá hinum almenna manni til ríkisins; aukið vald stjórnmálamanna á kostnað frelsis hins almenna manns. Ein frægasta sáttin var vorið 2000 þegar þingheimur sameinaðist um að „jafna fæðingarorlofið“. Fólst jöfnunin í því að orlofið, sem áður var sama krónutala á háa sem lága, var allt í einu orðið hæst fyrir þá sem hæstar tekjurnar hafa og lægst fyrir þá sem lakast eru settir fjárhagslega. Eina jöfnunin sem í raun fólst í þessari aðgerð var að jafnað var um skattgreiðendur. Hver fjögurra manna fjölskylda greiðir nú árlega 56 þúsund krónum meira í skatta fyrir þessa jöfnunaraðgerð en hún hefði ella gert. Önnur frægt sátt var þverpólitísk samstaða stjórnmálaflokkanna um eftirlaunaréttindi frambjóðenda sinna.

Nýjasta sáttin er í málefnum fjölmiðla. Fjölmiðlar ættu ekki að koma stjórnmálamönnum nokkurn hlut við en hér hefur ekki aðeins verið „sátt“ um að stjórnmálamennirnir reki risavaxið ríkisútvarp heldur þurfa þeir líka að ákveða hvernig aðrir fjölmiðlar líta út og haga sér. Hefur nefnd á vegum menntamálaráðherra, með fulltrúum allra stjórnmálaflokkanna, unnið að því að undanförnu að semja tillögur um það hvernig einkareknir fjölmiðlar eigi að vera svo allir stjórnmálaflokkarnir séu ánægðir.

Allar tillögur nefndarinnar miða að sjálfsögðu að því að færa vald frá neytendum til nefndanna.