Utanríkisráðherra Svía, Laila Freivalds, telur að það yrði til hagræðis ef öll Norðurlöndin gengju í Evrópusambandið en sem kunnugt er standa tvö þeirra, Ísland og Noregur, utan þess. Það myndi styrkja „norrænu víddina“ í Evrópusambandinu. Þetta kom fram í viðtölum hennar við íslenska blaðamenn í gær. Kannski var þetta óbein vísbending ráðherrans til Íslendinga um að smáríki, eins og Norðurlöndin eru í samanburði við fjölmennustu ríki Evrópusambandsins, hafi ekki mikil áhrif innan sambandsins og þurfi að mynda hagsmunabandalag til að koma málum áfram.
Hitt er þó líklegra að ráðherrann sé þjakaður af þeirri nauðhyggju sem einkennir umræðuna um Evrópusambandið. Er það náttúrulögmál að Danmörk, Svíþjóð og Finnland séu aðilar að ESB? Hvers vegna gengu ríkin í sambandið ef það er svo óþægilegt án liðveislu Íslendinga og Norðmanna? Hvers vegna er alltaf spurt hverjir gangi í sambandið næst í stað þess að spyrja hvort enginn ætli að segja sig úr því? Það kæmi sér sjálfsagt líka vel fyrir Ísland og Noreg ef hin Norðurlöndin væru aðilar að EES í stað ESB. Hvað ætli yrði sagt ef utanríkisráðherrar Íslands og Noregs færu með þann boðskap í opinbera heimsókn til Stokkhólms að það yrði til að styrkja EES samninginn að Svíþjóð gengi úr Evrópusambandinu og gerðist aðili að EES?
Gott og vel, sennilega gerir enginn ráð fyrir því að nokkurt ríki sleppi úr sambandinu sem einu sinni er komið þangað inn. Það er aldrei haldin þjóðaratkvæðagreiðsla um úrsögn úr Evrópusambandinu heldur aðeins kosið aftur og aftur um inngöngu þar til „endanleg“ niðurstaða fæst. En það er þá þeim mun meiri ástæða til að ana ekki inn, jafnvel þótt utanríkisráðherra Svíþjóðar telji sig geta notað það prósentubrot af atkvæðum sem Íslendingar hefðu yfir að ráða.