Eitt af því sem Vefþjóðviljinn hefur kveinkað skattgreiðendum undan, eru skilningsríkir stjórnmálamenn. Það er að segja, stjórnmálamenn sem þrýstihópar telja að „hafi skilning á mikilvægi“ þess málefnis sem agiterað er fyrir. Það að stjórnmálamaður „hafi skilning á mikilvægi íþrótta“ þýðir einfaldlega að hann lætur undan þegar íþróttaálfarnir mæta til hans og heimta ný „íþróttamannvirki“. Ef að stjórnmálamaður „skilur þarfir menningarinnar“ þá þýðir það eingöngu það að menningarmafían er með hann í vasanum. Stjórnmálamaðurinn skilningsríki er svo ræðumaður á þorrablóti íþróttafélagsins eða kemur upp á svið og afhendir leiklistarverðlaun, sem einhverjir hafa borgað fyrir menningarmafíuna, því ekki borgar hún þau sjálf. Vefþjóðviljinn hefur lengi auglýst eftir stjórnmálamönnum sem skilja málstað skattgreiðenda, en slíkir stjórnmálamenn þora sjaldnast að melda sig. Þeir gætu treyst andstöðu þrýstihópanna, en valtara væri að treysta á stuðning hins almenna skattgreiðanda, sem sjaldnast hefði jafn áberandi hagsmuni af hverri einstakri embættisfærslu. Hinn almenni skattgreiðandi sér ekki mikinn mun í eigin veski á því að ráðherra neiti að styrkja myndlistarmann til farar á erlenda sýningu, en samband íslenskra myndlistarmanna sæi sér mikla ógn í þessum ráðherra og legði talsvert á sig að koma skilningsríkari manni til valda. Þó er það svo, að hver einasta króna sem stjórnmálamenn nota til að sýna skilning sinn, hefur verið tekin frá skattgreiðendum sem hafa sem því nemur minna fé milli handanna.
Á dögunum var birt viðtal við mann sem gegnir starfi íþróttafulltrúa Garðabæjar, enda afar mikilvægt að útsvarsgreiðendur í Garðabæ hafi slíkan mann á sinni launaskrá. Maður þessi taldi stjórnendur bæjarins hafa mikinn skilning á mikilvægi íþróttamannvirkja, en verið er að koma upp íþróttaaðstöðu í bænum og kostnaðurinn, sem farinn er að nálgast milljarð króna, er að mestu greiddur úr bæjarsjóði. Íþróttafulltrúinn taldi að allir Garðbæingar væru hæstánægðir með þessar fjárveitingar og ekki fór á milli mála að sjálfur var hann hinn ánægðasti. Nú má vel vera að hver einasti Garðbæingur sé ánægður með að greiða meira en tíundu hverja krónu launa sinna til bæjarfélagsins sem svo leggur fótboltavelli fyrir stórfé. Kannski eru bæjarbúar dauðfegnir að sveitarfélagið tekur þennan hluta tekna þeirra í hverjum einasta mánuði og ver honum með þessum og öðrum álíka hætti, svona í staðinn fyrir að hver og einn skattgreiðandi ráðstafni þessum peningum eftir eigin löngunum; fari kannski oftar á tónleika, kaupi sér dýrari skó eða rauðvín með sunnudagssteikinni. Það veit Vefþjóðviljinn vissulega ekki. En það veit íþróttafulltrúinn ekki heldur og má raunar velta fyrir sér hversu marktækur hann er í slíkri umræðu yfirleitt. En sé það í raun svo, að mikill meirihluti útvarsgreiðenda vilji í raun taka þátt í því byggja íþróttamannvirki í bænum, hvers vegna má þá ekki láta þá sjálfráða um það? Hvers vegna má ekki lækka útsvör bæjarbúa og leyfa þeim að ráða því hvort þeir nýta þá auknar ráðstöfunartekjur til að greiða þá sjálfsagt hækkandi félagsgjöld íþróttafélaga og hækkandi aðgangseyri á völlinn? Og hið sama með menningarmannvirkin. Ef það er rétt að hinn almenni borgari vilji leggja fé til menningarhúsa og starfsemi þeirra, hvers vegna ekki að leyfa því að sjást með því að fólk greiði aðgangseyri eða félagsgjöld í styrktarsamtökum? Hvers vegna þarf alltaf að sækja með nauðungargjöldum fé til þessarar starfsemi sem „allir vilja styrkja“?
Mjög virðist vera til fyrirmyndar, söfnun Vestfirðinga vegna útsendinga Skjás eins í nokkrum þorpum. Þar hafa heimamenn safnað fé til að fjármagna með stöðinni uppsetningu senda. Að vísu lagði eitt bæjarfélag 200 þúsund krónur til einnar söfnunarinnar og vissulega var það aðfinnsluvert, en að öðru leyti virðist þetta hið ágætasta framtak. Að sjálfsögðu munu einhverjir ná útsendingunum án þess að hafa lagt krónu til söfnunarinnar, en enginn réttur er brotinn á neinum með því. Þeir bæjarbúar sem lögðu fram fé, vissu auðvitað af því að einhverjir flytu með. Þetta er hin eðlilega aðferð. Enginn er neyddur til að greiða fyrir neinn sendi; þeir sem frekar vilja fá sendi en eiga fimmþúsundkall í veskinu – eða hvað það var sem fólk lagði fram – þeir borguðu, hinir lúrðu bara áfram á fé sínu og nota það vafalaust til einhvers sem þeim finnst enn meira máli skipta. Frá almennu sjónarmiði getur það verið einhver ómerkilegri og óskynsamlegri hlutur en sendir fyrir Skjá einn, en þetta fólk er að ráðstafa eigin fé. Og það er jafnan viðkunnanlegra en þegar fólk ráðstafar annarra manna fé. Hversu mikinn „skilning“ sem þeir ráðstafendur hafa á því hvað annað fólk ætti nú að gera við peningana sína.