Helgarsprokið 22. ágúst 2004

235. tbl. 8. árg.

B ókin Why Globalization Works eftir Martin Wolf kom út nýlega og eins og glöggir lesendur kunna að átta sig á er hún skrifuð til stuðnings alþjóðavæðingu og er ætlað að sýna fram á að alþjóðleg viðskipti séu í dag ekki of mikil heldur of lítil. Þetta ætlunarverk höfundar heppnast prýðilega og bókin er ýtarlegt yfirlit röksemda með og á móti alþjóðavæðingu auk þess komið er inn á hvers vegna markaðshagkerfið gengur upp en önnur falla um sjálf sig. Wolf er enginn nýgræðingur á þessu sviði því segja má að hann hafi helgað megnið af lífi sínu athugunum á og umfjöllun um hagkerfi þróunarríkja. Wolf er á besta aldri, nálægt sextugu, og er hagfræðingur að mennt. Hann var félagshyggjumaður á sínum yngri árum, en smám saman dró úr trú hans á stjórnmálalegum lausnum og ríkisafskiptum og trúin á lausnir markaðarins fóru vaxandi. Þegar hann var í meistaranámi í Oxford las hann bókina Industry and Trade in Some Developing Countries: A Comparative Study eftir Ian Little, Tibor Scitovsky og Maurice Scott og hún mun hafa orðið til að efla trú hans á markaðinn umfram aðrar tegundir hagkerfa. „[Markaðurinn] var, svo vitnað sé til skynsamlegra ummæla Winstons Churchills um lýðræðið, versta hagkerfi sem til var, fyrir utan öll önnur hagkerfi sem reynd hafa verið í áranna rás,“ segir Wolf.

„Vandamál hinna fátækustu sé ekki að þeir hafi verið misnotaðir, eins og andstæðingar alþjóðavæðingar halda gjarnan fram, heldur að þeir séu nánast alveg ónotaðir því að þeir búi utan við hagkerfi heimsins.“

Aðrar bækur sem Wolf segir að hafi haft mikil áhrif á sig og hafi sannfært sig um að markaðshagkerfið sé líka nauðsynleg forsenda fyrir stöðugu lýðræði, þó að markaðurinn sé ef til vill ekki nægjanleg forsenda fyrir slíku lýðræði, eru bækurnar The Road to Serfdom og The Constitution of Liberty eftir Friedrich Hayek. Sú fyrrnefnda kom út á íslensku undir nafninu Leiðin til ánauðar. Eftir að námi lauk hóf Wolf störf hjá Alþjóðabankanum og starfaði bæði í Afríku og á Indlandi fyrir bankann. Hann komst  hins vegar á þá skoðun að bankinn lánaði of mikið og að ekki væri æskilegt að hann þyrfti að lána til ríkisstjórna. Wolf yfirgaf því bankann og nokkrum árum seinna, eftir að hafa starfað í hugmyndabanka í Bretlandi í nokkur ár, bauðst honum að verða aðalhagfræðingur Financial Times. Því starfi hefur hann nú gegnt í nær tvo áratugi, auk þess að vera nú aðstoðarritstjóri blaðsins.

Eitt af því sem Wolf bendir á í bók sinni er hve furðuleg sú hugmynd er að mannkyninu farnist best ef viðskipti milli manna eru látin ráðast af því hvar þeir eru staddir miðað við landamæri sem dregin hafa verið á landakort. „Hverjum dettur í hug að velferð Bandaríkjamanna myndi aukast ef hagkerfi þeirra yrði skipt upp eftir ríkjunum fimmtíu og hindranir á flutninga varnings, þjónustu, fjármagns og fólks yrðu settar upp á milli ríkjanna? Hverjum dettur í hug að Bandaríkjamenn yrðu betur settir ef hvert ríki hefði sérstakan fjármagnsmarkað, eða ef GE, Microsoft og IBM gætu aðeins starfað í einu ríkjanna? Lífsgæði myndu minnka snarlega í slíkum Lausaríkjum Norður Ameríku þar sem fjármagnsmarkaðir væru ekki sameiginlegir og þar sem engin bein fjárfesting eða viðskipti væru á milli ríkja. Sum ríki yrðu að fangelsum með örvæntingarfulla og óhamingjusama íbúa lokaða inni.“ Wolf segir að þetta séu einmitt örlög mikils fjölda jarðarbúa, og hann heldur áfram: „Ef sumir gagnrýnendur alþjóðavæðingar næðu sínu fram, myndu enn fleiri búa við sama ástand. En hvers vegna ætti mannkynið að vera betur sett með hagkerfið brotið upp í yfir 200 einingar sem eru algerlega sjálfum sér nægar? Hagkerfi heilla heimsálfa, svo sem Bandaríkjanna, myndu ef til vill áfram vera í þokkalegi horfi, en hvað yrði um lítil hagkerfi á borð við Hong Kong, Írland, Tævan eða Suður-Kóreu?
Og hvers vegna ætti að nema staðar við 200 einingar? Hvers vegna ekki að brjóta hagkerfi heimsins upp í 10.000 lönd, 600.000 ættbálka eða 6 milljarða einstaklinga sem væru sjálfum sér nægir?“ Wolf telur ekkert vit í að líta svo á að núverandi pólitísk skipting mannkynsins sé náttúruleg eða óumflýjanleg skipting og hann telur jafn fjarstæðukennt að ætla að skipta hagkerfi heimsins upp eftir þessum pólitísku línum.

Í bókinni er bent á að engum detti í hug að Bandaríkjamönnum myndi farnast betur ef hömlur yrðu settar á viðskipti milli ríkjanna 50.

„Við þurfum meiri alþjóðleg markaðsviðskipti en ekki minni ef við viljum auka lífsgæði þeirra fátækari í heiminum,“ segir Wolf, sem bendir á að almennt talað hafi lífsgæði í heiminum aukist á síðustu áratugum. Vandamál hinna fátækustu sé ekki að þeir hafi verið misnotaðir, eins og andstæðingar alþjóðavæðingar halda gjarnan fram, heldur að þeir séu nánast alveg ónotaðir því að þeir búi utan við hagkerfi heimsins. Mikill vöxtur þeirra þróunarríkja sem eigi sífellt aukin samskipti við önnur ríki heimsins hafi breytt heiminum til betri vegar. Það sem þurfi að gera sé að tengja þá, sem nú eru ótengdir, við hagkerfi heimsins. Wolf segir, ólíkt þeim sem standa fyrir mótmælagöngum og óeirðum vegna alþjóðavæðingar, að alþjóðavæðingin sé í raun ótrúlega takmörkuð. Þau lönd þar sem tekjur eru hæstar séu nú opnari fyrir viðskiptum og fjármagnsflæði en nokkru sinni áður, en þau haldi áfram að vernda vinnuaflsfreka framleiðslu, auðlindavinnslu og landbúnað. Með þessu valdi þau þróunarríkjunum umtalsverðum skaða.

Bók Martins Wolfs er yfirgripsmikil og fróðleg og mikilvægt framlag til umræðunnar um alþjóðavæðingu. Röksemdir hennar munu þó líklega engin áhrif hafa á áköfustu andstæðinga alþjóðavæðingarinnar. Þeir eru of uppteknir við að skrifa kröfuspjöld gegn bættum lífskjörum til að kynna sér afleiðingar baráttu sinnar.