Í
„Þar hefur jafnt og þétt styrkst sá meginþáttur embættisins að vera óháð og hafið yfir flokkapólitík og flokkadrætti, en um leið samnefnari fyrir íslenska þjóðmenningu, mennta- og menningarstefnu Íslendinga, tákn sameiningar en ekki sundrungar.“ – Vigdís Finnbogadóttir forseti Íslands. |
gær minntist Vefþjóðviljinn þess, að þegar Ólafur Ragnar Grímsson var kjörinn forseti Íslands árið 1996 þá var það viðkvæði mjög margra kjósenda hans að þeir ættu enga samleið með honum í viðhorfum til landsmála, en teldu sér fengu að síður fyllilega óhætt að kjósa hann til hinnar valdalausu tignarstöðu sem forsetaembættið var almennt álitið. Ólafur og eiginkona hans væru einfaldlega glæsileg hjón sem kæmu vel fyrir, bæði sem gestir og gestgjafar erlendra tignarmanna. Þessi skilningur á embætti forseta Íslands, að það sé hlutlaust sameiningartákn sem standi utan deilna, var svo rótgróinn að heita má að önnur sjónarmið hafi verið mæld í fylgi Sigrúnar Þorsteinsdóttur árið 1988 og Ástþórs Magnússonar árið 1994. Og ef nokkur maður reynir að telja sér trú um að þetta sé bara eitthvað sem menn reyni að finna út núna, eitthvert gaspur í vondum mönnum, sjálfsagt hægrimönnum þar að auki, til að grafa undan valdastöðu Ólafs Ragnars Grímssonar, þá er það misskilningur. Þessi skilningur á embættinu hefur jafnan verið yfirgnæfandi og ekki síst var honum stíft haldið fram af stuðningsmönnum Ólafs árið 1996, og sannfærði það marga endanlega um að óhætt væri að kjósa hann til Bessastaða.
Jón Baldvin Hannibalsson, formaður Alþýðuflokksins, sendi frá sér greinargerð vorið 1996 og sagði þar meðal annars að embætti forseta væri „táknræn tignarstaða“. Af því tilefni leitaði Alþýðublaðið til nokkurra merkra manna og spurði þá hvort þeir teldu embættið hafa völd. Svör þeirra voru vitaskuld í þá veru sem við mátti búast.
Karl Th. Birgisson, nú framkvæmdastjóri Samfylkingarinnar, starfaði á þessum tíma af krafti fyrir framboð Ólafs Ragnars Grímssonar. Hann taldi embætti forseta Íslands ekki aðeins efnislega heldur einnig „formlega séð mjög valdalítið“. Karl sagði: „Ég vil gjarnan halda forsetaembættinu, þótt það sé valdalaust, sem sameiningartákni, eins konar myndbirtingu þjóðarinnar inn á við og út á við. Það hefur raunverulegt gildi sem slíkt og getur haft afar mikið gildi ef réttur maður er í embættinu. Hins vegar hef ég lengi viljað breyta stjórnkerfinu í þá veru að forsætisráðherrann væri kosinn beinni kosningu, óháð þingkosningum.“
Dagur B. Eggertsson, nú borgarfulltrúi R-listans, svaraði á svipaðan veg: „Ég held að það sé í sjálfu sér rétt að embættið sé valdalaust tignarembætti. Það er ekki þar með sagt að það þurfi að vera áhrifalaust. Ég held að forsetaembættið geti nýst til áhrifa, bæði innan lands og erlendis.“ Og Dagur bætti við: „Ég er hlynntur forsetaembættinu. Ég held að það gegni ákveðnu hlutverki. Hlutverkinu verður að sinna á einn eða annan hátt hvort sem embættið er fyrir hendi eða ekki.“
Ágúst Einarsson, þáverandi alþingismaður Þjóðvaka, síðar varaþingmaður Samfylkingarinnar og prófessor taldi að mikil sátt væri um embætti forsetans: „Ég tel að þjóðin sé mjög sátt við hlutverk forsetans eins og það er núna. Forsetakosningarnar snúast nú, eins og oft áður, um afstöðu til persóna, um það í hvað miklu mæli viðkomandi geti orðið sameiningartákn og frambærilegur fulltrúi landsins, bæði utan lands og erlendis [sic]. Þjóðin er greinilega ekki viljug til að láta forsetakosningarnar snúast um breytingar á stjórnskipun eða hlutverki forseta Íslands. Hún vill fremur hafa baráttuna á persónulegum grunni.“ Og Ágúst Einarsson bætti við: „Ég tel að forsetaembættið sé í ágætum farvegi. Forsetinn er ákveðið sameiningartákn og fulltrúi þjóðarinnar innan lands og utan. Ég held að það sé alveg gott fyrirkomulag á meðan við tökum ekki upp róttækar breytingar á öðrum þáttum í okkar stjórnkerfi.“
Og hvernig var hinn almenni skilningur á stöðu forseta Íslands? Ætli honum hafi ekki verið best lýst með orðum Vigdísar Finnbogadóttur, sem á þessum tíma var að láta af forsetaembætti eftir 16 ára setu. Á sínu síðasta kjörtímabili, nokkru áður en þessir mætu menn töldu mikla sátt um það hvernig farið væri með forsetaembættið, hafði hún hafnað því að beita hugsanlegu synjunarvaldi forsetaembættisins:
Frá stofnun lýðveldis á Íslandi hefur embætti forseta Íslands verið í mótun. Þar hefur jafnt og þétt styrkst sá meginþáttur embættisins að vera óháð og hafið yfir flokkapólitík og flokkadrætti, en um leið samnefnari fyrir íslenska þjóðmenningu, mennta- og menningarstefnu Íslendinga, tákn sameiningar en ekki sundrungar. Glöggt vitni um það eðli embættisins er að enginn forseti hefur gripið fram fyrir hendur á lýðræðislega kjörnu Alþingi, sem tekið hefur ákvarðanir sínar með lögmætum hætti. |
Fullyrða má, að þetta hafi verið hinn almenni skilningur og það er ákaflega sennilegt að án hans hefði Ólafur Ragnar Grímsson, alþingismaður og fyrrverandi fjármálaráðherra, aldrei verið kosinn forseti Íslands. Það er afar ólíklegt, svo ekki sé meira sagt, að 40 af hundraði landsmanna hefðu falið umdeildasta stjórnarandstöðuþingmanni landsins það vald sem hann hefur nú seilst til.