Vefþjóðviljinn 166. tbl. 16. árg.
Sumarhefti tímaritsins Þjóðmála er komið út og kennir þar ýmissa grasa að vanda. Það má sjá af yfirliti útgefanda um heftið:
Erlendur Magnússon fjallar um þá valkosti sem Íslendingar eiga í gjaldmiðilsmálum, Frosti Sigurjónsson lýsir því hvernig við getum treyst krónuna í sessi til framtíðar, Páll Harðarson skrifar um afnám gjaldeyrishafta, Jón Magnússon rýnir í landsdóminn yfir Geir H. Haarde, Björn Bjarnason fjallar um forsetakosningarnar, Bjarni Jónsson skrifar um hagsmuni Evrópusambandsins á Íslandi og Gunnar Rögnvaldsson fjallar um byggðastefnu og þjóðríki. Í úttekt Þjóðmála er fjallað um tilraunir norðlenskra sveitarstjórnarmanna til að sniðganga ákvörðun innanríkisráðherra um að veita kínverskum auðjöfri ekki undanþágu frá íslenskum lögum til að hreiðra um sig á Grímsstöðum á Fjöllum. Birt er ávarp Gunnlaugs Sævars Gunnlaugssonar við komu Heimaeyjar VE-1 til heimahafnar, Jónas Ragnarson rifjar upp aðdraganda forsetakosninganna 1952, Vilhjálmur Eyþórsson skrifar um Barrabas og beina lýðræðið, Einar Benediktsson segir frá Berlínarborg, Ásgeir Jóhannesson skrifar um innflytjendastefnu frjálshyggjunnar og Hannes Hólmsteinn Gissurarson fjallar um göfuga villimenn í skrifum félagsvísindamanna. Birt er ljóðið „Sandur“ eftir Jónas Þorbjarnarson sem er nýlátinn. Einnig er birtur kafli úr bók Gunnlaugs Jónssonar, Ábyrgðarkveri, og sagt frá útkomu Váfugls eftir Hall Hallsson á ensku. Í bókadómum skrifa Vilhjálmur Bjarnason um Rosabaug yfir Íslandi og Björn Bjarnason um The End of Iceland’s Innocence.
Sem fyrr fæst áskrift að Þjóðmálum í Bóksölu Andríkis og þar má ennig kaupa stök hefti frá upphafi.