Vefþjóðviljinn 165. tbl. 16. árg.
Lafhræddir þingmenn ætla í dag að samþykkja lög sem heimila að göng verði grafin gegnum Vaðlaheiði með níu þúsund milljóna króna ábyrgð ríkissjóðs. Allir vita þeir að langlíklegast er að mikill hluti kostnaðarins lendi á ríkinu, en meirihluti þeirra mun samt ekki þora að standa gegn kröfum þeirra sem heimta göngin.
En þessi afgreiðsla alþingis leiðir hugann að tvennu.
Í fyrsta lagi að færinu sem andstæðingar núverandi forseta Íslands láta sér úr greipum ganga. Þeir áttu auðvitað að setja upp undirskriftasöfnun þar sem þess væri krafist að lögunum yrði synjað. Þeir hefðu getað fengið vanan mann eins og Róbert Marshall til að safna og fljótlega hefði mátt afhenda forseta Íslands tugþúsundir undirskrifta. Hefði Ólafur Ragnar þá setið uppi með tvo valkosti, svona miðað við eigin skilgreiningar á 26. grein stjórnarskrárinnar. Hann hefði annað hvort staðfest lögin, þrátt fyrir undirskriftirnar, og þar með blásið á allt talið um „rétt þjóðarinnar“, mikilvægi undirskrifta og alla þá vitleysu. Eða hann hefði tilkynnt að hann hefði synjað lögunum staðfestingar, með tilheyrandi fylgishruni sínu meðal kjördæmapotara.
Í öðru lagi minnir þetta á að ekki er lokið máli Sveins Arasonar ríkisendurskoðanda.