Nú berast fréttir af því að staðgreiðsla einstaklinga á tekjuskatti muni hækka um áramótin úr 38,55 í 38,58%. Ástæðan fyrir þessari hækkun er hækkun á útsvari nokkurra sveitarfélaga, þeirra á meðal Kópavogs, en staðgreiðslan er sett saman úr tekjuskatti ríkisins og útsvari sveitarfélaga. Á árinu sem er að líða fengu sveitarfélögin 12,80 og ríkið 25,75 af þessum 38,55%. Sveitarfélögin hafa á síðustu árum verið að hækka sinn hlut á meðan ríkið hefur lækkað sinn. Er nú svo komið að ríki og sveitarfélög hafa álíka miklar tekjur af staðgreiðslunni því sveitarfélögin fá sitt fyrst. Ef sveitarfélögin hefðu haldið aftur af eyðslusemi og þar með tekjuþörf sinni væri staðgreiðslan nokkrum hundraðshlutum lægri en hún er nú.
Þessi væntanlega hækkun á tekjuskattinum er það síðasta í hrinu aðgerða sem hið opinbera hefur gripið til á síðustu mánuðum til að sannfæra landsmenn um að öll kosningaloforð um skattalækkanir hafi dagað uppi. Viðtækjaskattur Ríkisútvarpsins var hækkaður, skattar á eldsneyti voru hækkaðir, blásið var lífi í sérstakan tekjuskatt („hátekjuskattinn“) og útgjöld ríkisins halda áfram að aukast sem er ávísun á enn frekari skattahækkanir á næstu árum.
Eftir áralangan hallarekstur og skuldasöfnun ríkissjóðs varð það viðhorf skiljanlega mjög ríkjandi upp úr 1990 að ríkissjóð bæri umfram all að reka án halla og það hefur verið gert hin síðari ár með litlum undantekningum. Og eru þá ekki allir ánægðir? Nei, því jákvæð afkoma ríkissjóðs hefur ekki verið vegna aðhalds og sparnaðar heldur fyrst og fremst stóraukinna skatttekna. Þeim er umsvifalaust eytt í ný verkefni og hærri laun opinberra starfsmanna. Það virðist alveg gleymt að það eru menn sem vinna fyrir þessum sköttum, á bak við hverja krónu sem veltur inn í ríkissjóð er vinna, tími, hluti af lífi einhvers manns. Það þarf því ekki endilega að eyða hverri viðbótarkrónu í ný eða aukin verkefni ríkisins. Það má líka skila krónunni til upphaflegs eiganda með því að lækka skatta. En það virðist bara ekki gerast. Jafnvel þótt því sé lofað mjög skýrt nokkrum mánuðum áður í aðdraganda kosninga.
Fleiri hallast nú að því að það dugi ekki að bíða eftir „réttum tíma“ til skattalækkana. Hann komi aldrei því stjórnmálamenn hafi alltaf meiri hag af því að efna til útgjalda sem gleðja lítinn hóp verulega en að lækka skatta óverulega á alla. Menn munu aldrei ná fram umtalsverðum skattalækkunum nema hrinda þeim einfaldlega í framkvæmd og láta svo ríkissjóð laga sig að þeim tekjum sem lægri skattar skila en þær þurfa ekki að vera minni en áður eins og dæmin sanna. Það þarf að minnka fóðrið til skepnunnar svo hún hætti að bæta á sig spiki fremur en að bíða eftir því ómögulega, að hún verði södd. Milton Friedman orðaði þetta ágætlega í The Wall Street Journal í apríl sem leið er rætt var um skattalækkanir ríkisstjórnar George W. Bush sem hrint er í framkvæmd þrátt fyrir hallarekstur á ríkissjóði Bandaríkjanna. „Ég held að það sé aðeins ein leið fær. Það er sama leið og foreldrar fara þegar þeir þurfa að hemja eyðslu barna sinna. Þeir minnka við þau vasapeninginn. Þegar ríkið er annars vegar þýðir þetta einfaldlega að lækka þarf skatta.“